Skjaldarmerki ÍslandsRíkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur féll í upplýsingamiðlun á vorprófinu 2013. Þessi falleinkunn átti örugglega sinn þátt í að stjórnarflokkarnir guldu afhroð í kosningunum. Ný ríkisstjórn verður að draga réttar ályktanir.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi atvinnuráðherra, var í viðtali í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni 2. júní. Þar fór hann yfir verk síðustu ríkisstjórnar.

Það sem ég hjó eftir í þessu viðtali er hve afdráttarlaust Steingrímur viðurkenndi slaka frammistöðu ríkisstjórnarinnar í upplýsingamiðlun. Gaf henni í raun falleinkunn, ágætiseinkunn í hagfræði en þeim láðist að koma meintum árangri á framfæri við þjóðina. Þetta er býsna áhugaverð ályktun ráðherrans.

Fögur fyrirheit en litlar efndir

Íslensk stjórnvöld hafa gefið fögur fyrirheit um þjónustu og upplýsingagjöf á netinu en það eru heldur minna um efndir.  Í stjórnarráðinu vinna margir hæfir einstaklingar við upplýsingamiðlun fyrir vefi, innri vefi og samfélagsvefi. En þeir eru skammarlega fáir miðað við umfang og mikilvægi þeirrar þjónustu sem þeir eiga að sinna.

Ég held að flestum hafi verið brugðið sem hlýddu á erindi vefstjóra stjórnarráðsins á fræðslufundi sl. haust á vegum Ský. Í forsætisráðuneyti starfar einn vefstjóri sem hefur umsjón með aðalvef stjórnarráðsins, forsætisráðuneytisins auk innri vefa og samfélagsmiðla. Og ekki nóg með það heldur hefur viðkomandi einnig fræðslu- og samræmingarhlutverk fyrir öll önnur ráðuneyti auk ýmissa annarra verkefna!

Ríkisstjórnir á hverjum tíma skila af sér góðum verkum en kvarta gjarnan undan illri meðferð fjölmiðla á meintum árangri. Er ástæða til að vorkenna stjórnarherrum? Nei, engan veginn. Stjórnvöldum á hverjum tíma ber skylda til að upplýsa almenning og átta sig á að það er fjárfesting sem þarf að gera ráð fyrir í fjárlögum. Ráðherrar mega ekki gleyma því að þeir eru framkvæmdastjórar í fyrirtækinu Ísland hf. og hafa ríkar skyldur við á 4ða hundrað þúsund hluthafa.

Fyrirmyndir í Bretlandi og kauphöllum

Sigmundur Davíð og Bjarni Ben ættu að skreppa í heimsókn til London til að kynna sér stefnumörkun og framkvæmd þjónustu breska ríkisins á netinu. Af henni má mikið læra.

Ríkisstjórnir á hverjum tíma eiga einnig að taka sér til fyrirmyndar reglur um upplýsingagjöf fyrirtækja sem eru skráð í kauphöll. Þeim ber að gera reikningsskil á 3ja mánaða fresti og skila ítarlegum ársskýrslum auk annarra skuldbindinga um upplýsingagjöf sem geta haft áhrif á gengi félaganna. Nákvæmlega á sama hátt ætti ríkisstjórnin að starfa. Hún á að vera meðvituð um umboð sitt gagnvart sínum stóra hluthafahópi og ekki bara leita nýs umboðs á fjögurra ára fresti.

Steingrímur og Jóhanna brenndu sig á þessu. Þeim til vorkunnar þá ólust þau upp við að dagblöð, sjónvarp og útvarp dygðu til að upplýsa þjóðina þegar það hentaði. Veröldin er snarbreytt og aldurssamsetning nýrrar ríkisstjórnar sömuleiðis. Því ættu vonir okkar hluthafa í Íslandi hf. að vera miklar um allt aðra og betri upplýsingagjöf og samræðu en þekkst hefur hjá ríkisstjórnum liðinna áratuga.

Á síðustu dögum ríkisstjórnar Jóhönnu voru kynnt drög að upplýsinga- og samskiptastefnu stjórnarráðsins þar sem ágæt fyrirheit eru gefin. En betur má ef duga skal. Orðum þurfa að fylgja efndir og aukin útgjöld til þessara mála.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar ber meira á áherslum um þjóðleg gildi en aukna þjónustu á netinu. Þó má finna þessa almennt orðuðu setningu í stjórnarsáttmálanum:

Áhersla verður lögð á að bæta stjórnsýslu og þjónustu ríkisins, m.a. með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga, rafrænni stjórnsýslu og hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa.

Mjór er stundum mikils vísir. Netverjar binda örugglega vonir við að Píratar haldi stjórnvöldum á tánum með Alþingsrýninum og ekki væri verra að fá ráðherrarýni.

Ríkisstjórnin rétt eins og stjórnendur fyrirtækja þurfa að gefa skýrt til kynna að upplýsingamiðlun inn og út á við sé forgangsmál. Ef hún ætlar að halda trausti eigin embættismanna (með innri vef) og þegnanna (með þjónustu á vefnum og samfélagsmiðlum) þá er öflug upplýsingamiðlun lykilatriði, ætli hún að eiga möguleika á endurnýjuðu umboði.

Steingrímur Joð er búinn að átta sig á þessu en bara of seint.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.