Nauðsynlegt er fyrir vefstjóra að viðhalda þekkingu sinni. Ráðstefnur og námskeið eru góð leið til þess og ef grannt er skoðað er ýmislegt í boði þó auraráð séu takmörkuð.

Margar hefðir hafa skapast í vefhönnun og grunnreglur fest sig í sessi t.d. í skrifum fyrir vefinn. Það breytir því ekki að starf vefstjórans er síbreytilegt. Við tökumst á við nýja miðla, ný tæki, nýjar kynslóðir og drögum ekki síst aukinn lærdóm af hegðun notenda á netinu eftir því sem rannsóknum á hegðun þeirra fjölgar.

Ráðstefnur efla tengslanetið

Ef við sitjum róleg í sæti okkar og gerum hlutina alltaf eins og við lærðum þá í upphafi er jafn víst að nýr vefstjóri taki við af okkur áður en við vitum af.

Í gegnum árin hef ég átt þess kost að sækja námskeið og ráðstefnur m.a. á vegum Nielsen Norman Group, Steve Krug, Adaptive Path, SVEF, Ský, Skýrr (Advania) og fleiri aðila. Á stefnuskránni í ár er að sækja ráðstefnu með þátttöku Gerry McGovern. Ekki þætti mér heldur verra að sækja ráðstefnu á næstu misserum með Paul Boag enda þessir félagar klárlega mínir áhrifavaldar.

Ráðstefnur skila vitaskuld mismiklu og oft hefur maður orðið fyrir vonbrigðum en það sem maður græðir þó alltaf er að hitta kollega og efla tengslanetið.

Hvar finnur maður ráðstefnur?

Besti vefurinn til að finna ráðstefnur á sviði vefmála er að mínu mati Lanyrd.com en þar má finna hvar helstu gúrúar á sviði vefþróunar, vefhönnunar, nytsemi, skrifa fyrir vefinn, samfélagsmiðla, mobile / farsímaþróunar og annarra viðfangsefna taka þátt. Vefurinn er þægilegur í notkun og dekkar að stórum hluta það svið sem lesendur þessa vefs hafa áhuga á.

Farðu frítt á vefráðstefnur

Það kostar ekki alltaf skildinginn að sækja ráðstefnur. Víða er hægt að finna vefráðstefnur sem oftar en ekki krefjast aðeins skráningar og mögulega færðu kannski fréttabréf sent í kjölfarið. En það getur svo sannarlega verið þess virði. Skoðið t.d. webinar hjá Gerry McGovern 5. júlí nk. um Top Task Management.

Nokkrir ráðstefnuhaldarar bjóða upp á upptökur af erindum sem hafa verið flutt á ráðstefnum. Þar vil ég sérstaklega benda á Content Strategy Forum 2011 þar sem m.a. má finna erindi frá Gerry McGovern (Stranger’s Long Neck), Karen McGrane, Kristina Halvorsen (Content Strategy for the Web) og Eric Reiss (Practical Information Architecture).

Á vefnum Slideshare má ennfremur finna haug af spennandi kynningum, oftar en ekki frá ráðstefnum sem margir hafa borgað sig dýrum dómi inn á.

Vefráðstefnur á Íslandi

Það þarf ekki fara út fyrir landsteinana til að finna áhugaverðar ráðstefnur. Samtök vefiðnaðarins (SVEF) hafa haldið metnaðarfullar ráðstefnur annað hvert ár og standa einnig fyrir smærri viðburðum eins og bjórkvöldum.

Skýrslutæknifélagið eða Ský hefur endurvakið faghóp um vefstjórnun en sá hópur stendur fyrir ráðstefnu í haust undir yfirskriftinni Haustvítamín fyrir vefstjórnendur. Allt áhugafólk um vefmál er hvatt til að skrá sig.

Skýrr (Advania) hefur staðið fyrir árlegri haustráðstefnu þar sem hefur gjarnan mátt finna mjög áhugaverð erindi á sviði vefmála.

Námskeið um vefmál hjá Endurmenntun

Á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands hafa verið ýmis námskeið í gegnum tíðina á sviði vefhönnunar, vefstjórnunar, WordPress, skrifa fyrir vefinn, innranets og fleiri.

Í september mun ég kenna námskeiðið Starf vefstjórans og stjórnun vefverkefna í þriðja sinn. Þetta námskeið hafa tæplega 50 vefstjórnendur sótt sl. 2 ár. Eftir áramót verður námskeið um Skrif fyrir vefinn einnig endurtekið í þriðja sinn hjá Endurmenntun.

Sumarið er auðvitað tími til að hlaða batteríin en það má samt hafa haustið í huga og skoða spennandi möguleika til endurmenntunar á sviði vefmála.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.