Frá því að Fúnksjón vefráðgjöf hóf starfsemi í ágúst 2013 hefur árið verið gert upp við hver áramót. Það sem einkennir árið, eins og árin á undan, er góður og jafn vöxtur.

Ef litið er til veltu þá er Fúnksjón með stöðugan vöxt á hverju ári ef miðað er við veltu. Árið 2017 varð aukning um 13%, árið á undan 17% og þar á undan 8%. Kannski er þetta stöðnun í einhverjum hagfræðilegum skilningi. Ég er ekki góður hagfræðingur. Hagtölur fyrirtækja sýna vafalaust meiri vöxt nú þegar þenslan er að ná hámarki í efnahagslífinu.

Velta Fúnksjón

Veltuaukning síðasta árs er a.m.k. ekki tilkomin vegna hækkana á tímagjaldi. Mér hefur láðst að láta tímagjald Fúnksjón fylgja verðlagsþróun sl. ár en frá 2013 hefur það hækkað um 1.000 kr. og stóð í 13.900 kr (án vsk) i lok síðasta ár. Mér finnst líklegt að ég hækki tímagjaldið um annan þúsundkall frá og með janúar 2018. Algengt tímagjald í þessum bransa er töluvert hærra. Oft sé ég tímagjald um og yfir 20.000 kr. (án vsk) hjá sambærilegum sérfræðingum.

Að reka eins manns fyrirtæki

Eins og ég hef tönnlast á í skrifum mínum þá vill Fúnksjón ekki stækka. Sem betur fer hef ég getað létt af verkefnum hjá mér t.d. með því að fá fyrirtæki sem ég vinn fyrir til að ráða nemendur sem ég haft í vefmiðlun við Háskóla Íslands. Vonandi munu nemendur mínir fljótlega stofna fyrirtæki sem ég get þá farið að vísa á með góðri samvisku.

Fúnksjón er og verður eins manns fyrirtæki. Mér hefur þótt leitt á árinu 2017 að þurfa að afþakka mörg spennandi verkefni vegna anna.

Þegar ég hóf starfsemi 2013 skipti mig miklu máli að gera mig sýnilegan og vinna að markaðssetningu. Það gerði ég ekki síst með reglulegum greinaskrifum, fyrirlestrahaldi og fáeinum keyptum færslum á Facebook. Þessi markaðssetning hefur sýnt sig að vera gulls ígildi. Reyndar svo góð að ég held að ég átti ekki mig á því til fulls.

Viðskiptavinir koma líklega til mín vegna þess að þeir telja að ég sé sérfræðingurinn, hafi skrifað um efnið (m.a. bók) en langflestir held ég þó að komi í dag vegna þess að það er einhver sem hefur mælt með þjónustunni.

Talandi um verðlagningu þá hef ég ekki á þessum 4-5 árum fengið eina kvörtun undan reikningi eða hárri kostnaðaráætlun. Fúnksjón hefur heldur aldrei rukkað krónu meira fyrir verkefni en tilboð hefur sagt til um. Það þykir kannski ágætt í þessum bransa.

Aðstoðarkötturinn Júlía
Júlia er ólaunaðar aðstoðarköttur hjá Fúnksjón

Kennsla, fyrirlestrahald og kvíðinn

Það var ekki einföld ákvörðun fyrir introvertinn að fara út í kennslu og halda fyrirlestra. Þetta var ákveðin neyð og kannski ákveðinn masókismi. Ég tók þá ákvörðun að mig minnir í lok árs 2010 að gauka að Endurmenntun HÍ hugmynd að námskeiði um vefstjórnun. Mig sárvantaði tekjur eftir hrunið og mér fannst ég vera farinn að dragast aftur úr í þekkingu í veffræðunum. Mér til skelfingar þá var tekið vel í þessa hugmynd svo það var ekki aftur snúið.

Ég hef ekki tölu á svefnlausum nóttum sem ég upplifði í margar vikur á undan fyrsta námskeiðinu. Svo hræddur var ég við þessa áskorun. Ég skrifaði hverja einustu setningu sem ég ætlaði að segja á tveggja daga námskeiði og æfði stíft. En það borgaði sig á endanum og líklega hefur enginn kennari í sögu Endurmenntunar verið jafn vel undirbúinn!

Þó svo að ég hafi sigrast að mestu leyti á minni fóbíu í gegnum árin, sem er að tala fyrir framan fólk, þá er ég enn stressaður fyrir hverja einustu kennslustund og ég tali ekki um opinberan fyrirlestur. Er reyndar hættur að missa svefn en ég hef sætt mig við að hræðslan hverfur aldrei fullkomlega. Og ég hef heyrt að það sama gildi um marga sjómenn sem hafa stundað sjó áratugum saman og alltaf verið sjóveikir eða leikara sem hafa jafnvel kastað upp fyrir hverja leiksýningu.

Þessi kvíðaskrif voru reyndar útúrdúr og koma árinu 2017 í sjálfu sér ekkert við. Afsakið þetta.

Á árinu hefur diplómanámið í vefmiðlun við Háskóla Íslands þroskast vel en ég hef umsjón með því námi og hef þetta líka fína starfsheiti, aðjúnkt í vefmiðlun, en það er hlutastarf samhliða vefráðgjöfinni. Það má búast við því að þetta nám eigi eftir að stækka, verða meistaranám, því á næstu árum á eftirspurn eftir þekkingu á sviði stafrænnar miðlunar og öllu sem snýr að notendaupplifun eftir að margfaldast.

Það var góður fjöldi sem skráði sig í diplómanámið haustið 2017, aðeins færri en fyrsta árið þegar vel á fjórða tuginn hófu nám. Úr þessu námi eru að útskrifast afar færir einstaklingar með góðan bakgrunn, skilning og færni í því sem snýr að stafrænni miðlun og notendaupplifun.

Ár innviðauppbyggingar í vefmálum

Aftur að markaðssetningu og fyrirlestrum. Ég var gríðarlega upptekinn af gov.uk árið 2013 og þeim ótrúlega viðsnúningi í opinberum rekstri sem Bretar fóru í og standa enn í. Það fékk mig til að skrifa um vefmál íslenskra stofnana, halda fyrirlestra og brýna hið opinbera að taka vefmálin föstum tökum. Auðvitað hafði ég í huga að það gæti verið góður möguleiki fyrir mig að sérþekking mín á vefmálum gæti nýst opinberum stofnunum vel. Sem varð raunin.

Ég fékk strax stórt verkefni, nýjan vef Samgöngustofu, og í kjölfarið fylgdu ótal verkefni fyrir hið opinbera. Það er nú einu sinni þannig að Ísland er lítið og fólk hittist á fundum, talar saman og ef orðsporið er í lagi þá er jafn líklegt að nýtt verkefni verði til í framhaldi af öðrum vel heppnuðum verkefnum.

Árið 2017 einkenndist af tali um innviðauppbyggingu í samfélaginu. Allir voru sammála um nauðsyn þess að styrkja innviðina (lesist opinberan rekstur í mikilvægustu stofnunum samfélagsins). Þetta ár, 2017, var innviðauppbyggingarár Fúnksjón. Viðskiptavinum mínum hefur fækkað en verkefnin hafa stækkað. Og ekki get ég kvartað því ef vitnað er til skrifa minna í uppgjöri fyrir árið 2016 þá sagði ég m.a.:

En mig langar oft að hafa meira svigrúm, vinna hlutina enn betur en tíminn leyfir, vinna í langtímaverkefnum og fá fyrirtæki til að fjárfesta enn betur í undirbúningi. Kannski verður 2017 þannig ár.

Með öðrum orðum, ég var aðeins þreyttur á „harkinu“ sem er sagt að einkenni þann sem er að vinna „freelance“.  Árið 2017 var svo sannarlega þannig ár. Mér auðnaðist að fá stór verkefni sem byggja á langtímahugsun. Ég fór inn í verkefni fyrir tvö af stærstu fyrirtækjum landsins, annars vegar Háskóla Íslands og hins vegar Landspítalann. Þar hef ég unnið að stórum verkefnum og geri áfram fyrir síðarnefndu stofnunina.

RARIK hefur einnig verið mikilvægur viðskiptavinur sl. ár þar sem fæðst hefur vefstefna, nýr vefur, Workplace innleiðing og nýr innri vefur. Dómstólar landsins (Hæstiréttur, héraðsdómstólar og Landsréttur) og stjórnsýsla þeirra hafa sömuleiðis verið mér mikilvægir viðskiptavinir en sl. ár hafa vefmál þessara mikilvægu hornsteina samfélagins tekið stakkaskiptum, er mér óhætt að segja. Í könnun sem var gerð um viðhorf lögmanna og annarra notenda vefs Hæstaréttar kom fram afar mikil ánægja með vefinn, meiri en ég hef séð í hliðstæðum könnunum.

Vefur dómstólasýslunnar
Vefur dómstólasýslunnar er gátt í alla vefi dómstólanna

Er Fúnksjón vefráðgjafi hins opinbera?

Það getur vel verið að það sé litið á Fúnksjón sem vefráðgjafafyrirtæki hins opinbera og það finnst mér ekkert leiðinlegt þó ég sé lítt hrifinn af stimplum. Mín reynsla er þó fyrst og fremst í einkageiranum, þ.e. áður en ég hóf ráðgjafastörf. Vann t.d. í um 10 ár hjá bönkunum og leiddi vefþróun í Kaupþingi (7-8 ár) og Íslandsbanka (3 ár) og hef unnið fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina.

Ég sækist eftir verkefnum sem hafa skýr markmið og að metnaður liggi á bak við. Þegar ég finn að verkefni geti skilað samfélagslegum ávinningi þá fæ ég einhvern aukinn kraft og eldmóð. Í dag brenn ég t.d. fyrir því að bæta þjónustu Landspítalans og auka stafrænt aðgengi að þjónustu og upplýsingum. Ég fæ ágætlega borgað fyrir mína ráðgjöf og það skiptir mig auðvitað máli en verkefnin sem ég vinn við skipta enn meira máli. Jafn klisjukennt og það hljómar.

2018: Árið sem vefmál hætta að heita vefmál

Árið 2018 sýnist mér að verði ekki óáþekkt síðasta ári. Stórum og langtímaverkefnum mun fjölga en minna svigrúm verður fyrir minni verkefni. Eins og staðan er í dag get ég ekki tekið að mér ný verkefni fyrr en eftir páska eða í apríl 2018.

Eins og ávallt er ég opinn til viðræðna og ef fyrirtæki hafa biðlund þá vil ég alltaf heyra um spennandi og metnaðarfull verkefni. Svo er ég líka með ágætan gagnabanka af góðu fólki sem ég á auðvelt með að mæla með.

Í fyrstu ársuppgjörum Fúnksjón gerði ég talsvert úr greinaskrifum minum, fjölda greina, umferð um vefinn, mest lesnu greinunum, hvaðan umferð kom á vefinn o.fl. Þetta er í sjálfu sér aukaatriði í dag fyrir minn rekstur en ég sakna þess að skrifa, gefa út greinar, fylgjast með viðtökum og öðru sýsli við greinaskrifin. Vonandi næ ég aftur dampi í greinaskrifin og mögulega nýja bók þegar fram líða stundir. Það er þó best að hætta að lofa bótum og betrun í þeim efnum. Er of brenndur af því.

Árið 2016 hélt ég engan opinberan fyrirlestur en árið 2017 voru þeir tveir og báðir snerust um þær miklu áskoranir sem fyrirtæki standa frammi fyrir i stafrænni aðlögun og breytingum sem verða óhjákvæmilega á starf vefstjórans. Þetta er innblástur frá bókaskrifum Íslandsvinarins Paul Boag!

Og í þessum efnum er ég ekki hættur. Ég vil vekja fyrirtæki hér á landi til umhugsunar, það er þeim lífsnauðsynlegt að fara alla leið í stafrænni hugsun og menningu. Að öðrum kosti munu þau visna og tapa í samkeppninni. Opinber rekstur er ekki undanskilinn. Krafa fólks er að fá almannaþjónustu í gegnum stafrænar leiðir.

Mín spá er að árið 2018 verði árið sem vefmál hætta að heita vefmál. Það verður líklega erfiðast fyrir mig sjálfan að takast á við þá breytingu að tala framvegis um stafræn mál, stafræna miðlun, stafræna þjónustu o.s.frv.

Viðtal við Paul Boag

Paul Boag, 20 ár í vefbransa og skrifstofan

Það urðu ýmis tímamót í mínu lífi á árinu. Ég hitti átrúnargoðið mitt Paul Boag á Iceweb, sótti vinnustofu, hlustaði á fyrirlestur og tók viðtal við Paul sem vinur minn Ármann Gunnarsson gerði frábær skil í myndbandi.

Tveir vefir sem ég vann að árið 2016 fengu vefverðlaun, Hafnarfjörður og FitSuccess.  Það er alltaf huggulegt að fá tilnefningar (voru alls fimm) og verðlaun fyrir sína vinnu og samgleðjast viðskiptavinum.

Á síðasta ári áttaði ég mig á að það voru liðin 20 ára frá því að hóf störf í vefmálum, sem útgáfustjóri hjá Siglingastofnun sálugu. Það eru ákveðin tímamót.

Ég flutti skrifstofuna heim í Hafnarfjörð vorið 2017. Nú fer minni tími hjá mér í akstur og þeyting. Ég ver mun meiri tíma fyrir vikið á kaffihúsum til að brúa tíma á milli funda eða til að fá tilbreytingu.

Á síðasta ári var Workplace frá Facebook mér talsvert hugleikið og sú ógn sem þessi samfélagsmiðla- og innrivefs lausn er fyrir innri vefinn og innri vefs ráðgjafa. Ég ætlaði mér að rannsaka Workplace og skrifa meira um það en ég gerði. Á síðasta ári kom Workplace talsvert við sögu hjá mér í verkefnum og ég hef komið að eða kynnst innleiðingu þess hjá mörgum viðskiptavinum. Í megin atriðum þá er innkoma Workplace mjög jákvæð fyrir innri upplýsingamiðlun og samstarf. Meira um það síðar.

Vefir í loftið á árinu

Ef bókhaldið mitt svíkur ekki þá fóru alls þrettán vefir í loftið þar sem Fúnksjón kom talsvert við sögu. Ég gæti (og ætti) skrifað góða grein um hvert verkefni fyrir sig því hvert þeirra var lærdómsríkt og gefandi. Læt listann duga að sinni.

Vefur HÍ
Nýr vefur HÍ fór í loftið

Offscreen tímaritið og bækurnar 

Ég hef oft verið duglegri að lesa bækur um vefmál en ég gerði þó nokkrum ágæt skil en þær sem ég man eftir eru eftirfarandi:

Þó ég segist hafa lesið þessar bækur hér að ofan þá las ég nú ekki allar frá orði til orðs fyrir utan bók Pauls (lesið hana oftar en einu sinni) en þá get ég ekki annað en minnst á hið stórkostlega tímarit Offscreen sem hefur fært mér ómælda gleði og ánægju síðustu ár eða frá því að Gummi Sig hjá Kosmos & Kaos kynnt mig fyrir því um árið. 

Offscreen varpar ljósi á fólkið sem vinnur í vef- og tæknigeiranum og sýnir mannlegu hliðina. Hvert viðtal er einstaklega vel unnið, prentunin er afar vönduð, engar hefðbundnar auglýsingar (fyrir utan styrktaraðila) og lesningin er ávallt gæðastund. Okkur ber skylda til að styðja við svona framtak. Þetta fær okkur sem störfum í stafrænum heimi frá skjánum og til að átta sig á mikilvægi þess að eiga sér líf utan vinnunar. Farið í áskrift og gerist patrónar eins og Fúnksjón er. Hver áskrift og stuðningur skiptir máli.

Offscreen tímaritið

Ráðstefnur, fundir og fyrirlestrar

Á hverju ári sæki ég ráðstefnur en þær voru nokkrar á árinu. Iceweb var endurvakin og stóð fyrir sínu og sama má segja um EuroIA í Stokkhólmi. Það er gefandi að hitta kollega innan- og utanlands og styrkja tengslin. Það er ekki síst ávinningurinn af því að mæta fyrir utan að drekka í sig fróðleikinn.

SVEF hefur staðið fyrir sínu í viðburðum þó þeir gleymi því að það er fjölbreyttari hópur en tríó (hönnuður, forritari og verkefnastjóri) sem vinnur við vefi! En ég fyrirgef það því SVEF er á mikilli siglingu frá því sem var fyrir nokkrum árum síðan. Annars hef ég fulla trú á að tríóið breytist í sextett á nýju ári!

Faghópur um vefstjórnun hjá Ský hefur líka staðið sig vel með áhugaverðum viðburðum.

Á síðasta ári hélt ég tvo opinbera fyrirlestra sem fjölluðu um sama grunnstef, þ.e. stafræna aðögun, notendaupplifun og framtíð vefstjórans.

Stafræn framtíð bíður þín!

Ég hugsa að ársins 2018 verði minnst fyrir það að þá vöknuðu fyrirtæki til vitundar um sína stafrænu framtíð. Sanniði til.

Er fyrirtækið þitt undirbúið undir hina óhjákvæmilegu stafrænu framtíð?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.