Í dag, 31. júlí 2019, er komið að leiðarlokum hjá Fúnksjón vefráðgjöf. Sex ára ævintýri, vegferð eða hvað við eigum að kalla það, er lokið. Enginn tregi. Bara tilhlökkun að takast á við nýja áskorun. Á þessum tímamótum læt ég einnig af störfum sem aðjúnkt í vefmiðlun við Háskóla Íslands.

Á morgun, 1. ágúst 2019, hef ég störf hjá Hafnarfjarðarbæ sem sviðsstjóri þjónustu og þróunar. Þetta er nýtt starf hjá bænum. Stóra verkefnið er að koma þjónustu bæjarins í stafrænni búning. Ég kann eitthvað fyrir mér í því. En meira um starfið í Hafnarfirði síðar og á öðrum vettvangi.

Það var í sjálfu sér engin ástæða til að setja punkt aftan við ráðgjafakaflann í mínu lífi á þessum tímapunkti. Síðasta ár var það besta í starfsemi ráðgjafarinnar.

Árið 2018 keyrði ég á vegg

Þetta er ekki rökrétt. Aldrei betri afkoma og hvernig getur þá ráðgjafinn sagt að komið sé nóg?

Ég veit það ekki fyrir víst. En þegar ég gref aðeins ofan í sjálfan mig þá held ég að í reynd sé það velgengnin sem batt enda á ævintýrið. Í árslok 2018 var ég þreyttur. Í reynd uppgefinn. Hafði unnið allt of mikið í of langan tíma. Of margar helgar, of mörg kvöld. Það var ekki bara ráðgjöfin, 49% starf aðjúnkts við Háskóla Íslands var hrein viðbót við a.m.k. 100% starf ráðgjafa. Þið kunnið samlagningu. Ekki skynsamlegt til lengdar.

Án þess að hafa gefið út eitthvað áramótaheit þá var ég orðinn opinn fyrir einhverju nýju í byrjun nýs árs. Ég hef alltaf fylgst með atvinnuauglýsingum í gegnum tíðina, ekki síst til að fylgjast með eftirspurn fyrirtækja eftir sérfræðingum á hinu stafræna sviði. Svo kom auglýsing í vor frá mínum kæra bæ, Hafnarfirði, sem talaði beint við mig og ég hugsaði: “Þau eru að leita að mér!” Ég segi ekki án umhugsunar, en það var nálægt því, en ég ákvað að láta til skarar skríða og senda inn umsókn.

Ég fann að ég þurfti að gera eitthvað róttækt til að öðlast gleðina á ný. Ég vil ekki segja að ég hafi fundið fyrir kulnun, sem er stórt orð, en það var ekki fjarri því eftir sem ég best þekki einkennin. Ég gat vel sinnt þeim verkefnum sem ég hafði tekið að mér og sinnti að mínu mati vel mínum föstu viðskiptavinum. En ég fékk mig ekki til að setjast niður á kvöldin eða um helgar til að sinna einhverju vinnutengdu. Gerði það sem var ætlast til af mér en átti ekkert auka til á tanknum. Ólíkt því sem áður var.

Ef litið er til baka á ferilinn minn þá sé ég að ég þarf reglulega á nýjum áskorunum að halda. Ég vann þrjú ár hjá Húsnæðisstofnun, þrjú ár hjá Siglingastofnun, eitt ár hjá PwC, átta ár hjá Kaupþingi, þrjú ár hjá Háskóla Íslands, tvö ár hjá Íslandsbanka og núna sex ár hjá Fúnksjón. Auk þess var ég um sjö ár í kennslu hjá Háskóla Íslands.

Þessi auglýsing frá Hafnarfjarðarbæ kveikti í mér. Ég fann neistann og eftir því sem á leið umsóknarferlið varð ég spenntari. Að geta haft mikil áhrif á stafræna þróun og þjónustu í þriðja stærsta sveitarfélagi landsins og með vinnustaðinn nánast í bakgarðinum var of freistandi. Þetta var afar faglegt ferli með mörgum viðtölum, persónuleikaprófum auk kynningar sem ég þurfti að halda á mér og mínum áformum. Þetta var nálarauga að komast í gegnum en ég skal trúa ykkur fyrir því að ég hefði orðið verulega svekktur ef ég hefði ekki náð alla leið. Það var gott að finna gamla keppnisskapið blossa upp og landa starfinu. Frá því að ég fékk að vita að starfið væri mitt þá hef ég um lítið annað hugsað.

Þessi pistill er samt ekki um nýja starfið heldur ætla ég aðeins að líta til baka og leggja mat á þessi sex ár hjá Fúnksjón.

Hið opinbera þurfti á mér að halda

Ég hef rakið upphafið að ráðgjöfinni í öðrum pistlum og ætla ekki að endurtaka það allt hér en lít þó stuttlega í baksýnisspegilinn.

Það var gæfuspor fyrir mig að segja upp góðu starfi í banka og fylgja hjartanu árið 2013. Ég var ekki með neina tryggingu fyrir einu einasta verkefni en ég var samt sannfærður um að það væri eftirspurn eftir minni þekkingu. Bloggið sem ég hafði skrifað í einhvern tíma skilaði mér sýnileika í Google sem og námskeið og fyrirlestrar sem ég hafði haldið. Ég sá fljótt að það væri ekki síst í hinum opinbera rekstri þar sem var þörf á ráðgöf.

Á þessum tíma, 2013, var GOV.UK í brennidepli. Ég sökkti mér í þeirra aðferðafræði og heimfærði upp á Ísland. Ég málaði ástandið hér heima dökkum litum, vildi vekja stjórnendur hjá hinu opinbera til umhugsunar um þessi mál. Það var full þörf á. Fyrsti alvöru kúnninn minn var hjá nýrri opinberri stofnun, Samgöngustofu, sem varð til með sameiningu þriggja stofnana. Þetta var eitt eftirminnilegasta og að mörgu leyti eitt besta verkefnið sem ég vann þessi sex ár. Ég toppaði sem sagt snemma!

Verkefnið fékk ég með því að hafa samband við forstjóra nýrrar stofnunar, sem var minn gamli forstjóri hjá Siglingastofnun hvar ég starfaði á síðustu öld (1997-2000)! Þetta var jafnframt eitt af örfáum verkefnum þar sem ég hafði frumkvæði að því að sækja verkefni.

Ég ákvað að gefa engan afslátt af kröfum til þarfagreiningarinnar. Nýr vefur skyldi vera byggður á þörfum notenda. Gerði mér grein fyrir að það gæti staðið í þeim að ráðast í svona viðamikla þarfagreiningu (sem vel að merkja telst ekki svo umfangsmikil í dag). Ég hef rakið þetta verkefni í kennslu og fyrirlestrum og er virkilega stoltur af því. Starfaði með frábæru fólki í stofnuninni og árangurinn var eftir því. Vefurinn vann til verðlauna sem besti opinberi vefurinn árið 2014. Mitt fyrsta alvöru verkefni varð að verðlaunavef og að mörgu leyti stendur vefurinn enn fyrir sínu, fimm árum síðar.

Samhliða þessu verkefni vann ég að útgáfu bókarinnar Bókin um vefinn með mikilvægum stuðningi frá Hugsmiðjunni en ég hélt einnig námskeið á þeirra vegum undir formerkjum Vefakademíu Hugsmiðjunnar. Mitt samstarf við Ragnheiði H. Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Hugsmiðjunnar var í einu orði sagt frábært. Ég bar mikla virðingu fyrir hennar starfi og hún fyrir mínu. Sérfræðingar Hugsmiðjunnar reyndust mér frábærlega í rýni á efni bókarinnar. Og ég er þakklátur fyrir stuðninginn og samstarfið. Án nokkurs vafa var þetta heillaspor fyrir mig. En ég fann engu að síður að vefheimurinn skynjaði eins og við værum nánast eitt, þ.e. Fúnksjón og Hugsmiðjan. Og að vissu leyti voru það mistök enda vildi ég leggja áherslu á sjálfstæði mitt sem óháðs ráðgjafa. Það tók mig þó nokkurn tíma að “leiðrétta” þetta og láta markaðinn vita að ég væri ekki handbendi nokkurs en skiljanlega mátti draga þessa ályktun.

Á þessu sex ára tímabili kenndi ég alltaf meðfram ráðgjöfinni, fyrst hjá Endurmenntun HÍ, Vefakademíu Hugsmiðjunnar, sem stundakennari við HÍ og síðar aðjúnkt í vefmiðlun auk ýmissa námskeiða hjá mismunandi stofnunum. Kennsla og ráðgjöf eiga einstaklega vel saman. Með því að kenna er ég á tánum, get miðlað reynslu til nemenda sem græða á tengingu minni við raunveruleg verkefni og til verða tengingar í kennslu sem stundum gefa af sér verkefni.

Hvernig eignast maður viðskiptavini og heldur þeim ánægðum?

Tengslanetið og orðsporið má segja að hafi skilað mér nánast öllum öðrum verkefnum. Ísland er lítið, þegar fólk hittist á fundum þá ræðir það um verkefnin sem eru í gangi og Fúnksjón virðist oft hafa borið á góma. Svo gúgglast ráðgjöfin ansi vel fyrir utan sýnileika minn á ýmsum viðburðum svo sem Ský, SVEF, UT messu o.fl.

Á sex árum eignaðist ég aldrei óánægðan viðskiptavin. Fékk ekki eina kvörtun vegna reikninga. Líklega segir það eitthvað um hvernig þetta gekk. Og já ég hef líklega rukkað alltof lítið í gegnum tíðina! Tímagjald Fúnksjón byrjaði árið 2013 í 12.900 kr. og fór hæst í 14.900 kr. m.vsk. Ég hef líklega verið með eitt lægsta tímagjald sérfræðinga (með álíka reynslu) í bransanum á þessu ári. Tímagjald sumra er komið vel yfir 20.000 kr. + vsk og í sumum tilvikum yfir 30.000 kr.! Það mætti skrifa sér pistil um þá þróun.

Ráðgjöfin snerist aldrei um að verða ríkur heldur til að fylgja draumi um að starfa sjálfstætt. Ég varð ekki ríkur í efnislegum skilningi en ég hafði það samt gott sem ráðgjafi en það kostaði mikla vinnu. Ég hefði aldrei lagt svona miklu vinnu á mig heldur ef ég hefði ekki haft þessa ástríðu í starfinu, bæði ráðgjöf og kennslu. Ég vann ekki “svart” og enginn bað mig um það heldur. Ríkið fékk sitt og ég fékk mitt frá ríkinu! Langstærstur hluti tekna Fúnksjón, sérstaklega sl. 2-3 ár, komu frá hinu opinbera. Það má segja að sé afleiðing af markaðssetningu í byrjun eins og ég hef rakið hér að framan.

Eitt af mínum prinsippum í gegnum lífið er að vera aldrei hálfviti. Ekki brenna brýr. Aldrei koma illa fram því þú veist aldrei hverjum þú mætir síðar á leiðinni. Það þýðir ekki að ég sé segi aldrei mína meiningu á fólki eða verkefnum. Enda þarf ráðgjafi að segja sína meiningu jafnvel þó hún sé óvinsæl. Það hef ég þurft að gera í fjölmörgum verkefnum, t.d. í verkefninu fyrir Samgöngustofu. Stjórnendur vildu ákveðna niðurstöðu en ég stóð með notendum og niðurstöðum þarfagreiningar. Á endanum var fallist á þau rök og það með góðum árangri.

80 viðskiptavinir á sex árum

Á þessum sex árum hef ég unnið fyrir 80 viðskiptavini. Á bak við mörg verkefni hef ég hitt fjöldann allan af notendum og unnið með miklum fjölda stjórnenda, vefstjóra, markaðsstjóra, samskiptastjóra, forritara, vefhönnuða o.s.frv. Ég hef öðlast innsýn í starfsemi afar ólíkra fyrirtækja, þurft að aðlaga mig að mismunandi menningu hvort sem það er vinna fyrir Bláa lónið, RARIK eða Landspítalann. Þetta er dýrmæt reynsla sem ég tek með mér í mitt nýja starf. Ég þekki markaðinn afar vel, hvort sem það eru veflausnir, vefumsjónarkerfi, einstaklingar í bransanum, hugbúnaður, vefstofur o.s.frv.

Í grófum dráttum má flokka fyrirtækin 80 sem ég hef unnið fyrir í eftirfarandi flokka:

  • Opinberar stofnanir
  • Ráðuneyti
  • Háskólastofnanir
  • Endur- og símenntunarstofnanir
  • Orkugeirinn
  • Einkafyrirtæki
  • Sveitarfélög
  • Stéttarfélög
  • Félagasamtök

Stærstu viðskiptavinir mínir á þessum sex árum hafa verið:

  • Landspítalinn
  • Háskóli Íslands
  • RARIK
  • Dómstólasýslan og dómstólarnir
  • Stjórnarráðið / ráðuneyti

Ég er ánægður með flest verkefni sem ég unnið að. Misánægður auðvitað. Stundum stoltur. Mig langar að minnast sérstaklega á Landspítalann sem ég kveð með miklum söknuði. Þar eru mörg spennandi verkefni framundan sem aðrir taka við. Við náðum á einu ári (2018) að opna bæði nýjan ytri vef (janúar) og innri vef (desember) sem voru unnir í framhaldi af samþykktri vefstefnu. Það er að mínu mati talsvert afrek hjá jafn stórri stofnun og Landspítalinn er. Spítalinn hefur í framhaldi mikla möguleika til að auka sjálfsafgreiðslu ekki síst með samstarfi við aðrar heilbrigðisstofnanir. Ég verð að minnast sérstaklega á Stefán Hrafn Hagalín deildarstjóra samskiptadeildar spítalans sem hefur unnið þrekvirki í samskiptamálum á stuttum tíma. Af honum hef ég lært mikið og þakka traustið sem ég hef fengið í stórum verkefnum.

Einyrki en ekki einn

Það hefur verið afar lærdómsríkt að vera einn og sjálfstæður ráðgjafi. Einhver gæti haldið að þetta sé einmanalegt en það var það sjaldnast en það hjálpar að ég þoli ágætlega minn eigin félagsskap. Sl. tvö til þrjú ár var ég með skrifstofu heima en var áður með skrifstofu í miðbænum. Það eru kostir og gallar við að starfa heima. Líklega fleiri gallar því þú losnar aldrei almennilega úr vinnunni. Í dag finn ég að ég afkasta orðið mestu á öðrum stöðum en heima á skrifstofunni. Það getur t.d. verið frábært að vinna í flugvél, ég elska að vinna í Þjóðarbókhlöðunni, finnst gott að vinna á kaffihúsi og það er góð tilbreyting að vinna í sumarbústað.

Nánast alla daga var ég í samskiptum við fólk, hitti á fundum, vinnustofum, í viðtölum, notendaprófunum, flokkunaræfingum og svo auðvitað í kennslunni.

Núna vilja allir Lilju kveðið hafa

Ég setti fram í byrjun míns ferils sem ráðgjafa 15 sannfæringar í vefmálum. Þær standa í öllum megin atriðum enn sex árum síðar. Mér finnst t.d. mun meiri virðing borin fyrir aðgengismálum, nytsemi, að kynnast notendum, starfi vefstjóra og mikilvægi efnis. Það hefur að langmestu leyti átt sér stað jákvæð breyting á vefumhverfinu eða ætti ég að segja hinu stafræna umhverfi. Núna tala flestir stjórnendur um mikilvægi stafrænnar þjónustu og notendamiðaðrar hönnunar.

Ég var dálítið eins og hrópandinn í eyðimörkinni árið 2013 (með örfáum en góðum undantekningum) sem talaði fyrir því að eyða tíma með notendum og fjárfesta í þarfagreiningum. En á sex árum hefur átt sér stað bylting á þessu sviði. Og jafnvel komið út í talsverðar öfgar.

Ég man sérstaklega eftir einu atviki, á fundi á vegum SVEF, þar sem einn besti vefhönnuður landsins sagði frá því að honum hefði barasta dottið í hug að tala við notendur. Fór út á meðal þeirra og spurði þá út í þeirra þarfir og álit á sinni vefhönnun. Það heyrðust aðdáunarandvörp í salnum og nokkur VÁ! Gerðir þú það virkilega? En þetta var árið 2014 þegar notendur voru ekki sérstaklega mikið með í ráðum í vefverkefnum.

Í dag, árið 2019, fjárfesta mörg fyrirtæki verulega í notendarannsóknum og undirbúningi verkefna. Fyrir nokkrum árum þurfti að beita fyrirtæki miklum sannfæringarkrafi til að fjárfesta í undirbúningi og þarfagreiningu. Núna sjá mörg fyrirtæki ekkert því til fyrirstöðu að ráða inn margra manna sérfræðingateymi í fleiri vikur til að greina verkefni áður en haldið er af stað í hönnun og smíði. Að vissu leyti erum við komin út í ákveðnar öfgar í þessa átt. Vefir sem áður máttu aðeins kosta nokkrar milljónir geta kostað yfir hundrað milljónir króna, þess eru mörg dæmi á sl. árum.

Takk fyrir mig!

Í dag á Hafnarfjörður alla mína athygli. Þar verður af nógu að taka í verkefnum sem snúa að stafrænni þróun. Það hefur margt verið vel gert en óþrjótandi tækifæri til að bæta þjónustu og notendaupplifun íbúa og gesta í Hafnarfirði. Fylgist með okkur á þeim vettvangi.

Að lokum TAKK FYRIR mig! Það hefur verið mér mikil ánægja að fá að vera þátttakandi í stórum breytingum og ánægjulegri stafrænni þróun með 80 viðskiptavinum og mörg hundruð nemendum í gegnum árin. Hvort Fúnksjón snúi aftur er alls óvíst en ég legg það ekki i vana minn að líta til baka og á alls ekki von á að það verði í þetta skiptið enda hef ég líklega aldrei verið jafn spenntur fyrir verkefnum sem eru framundan.