Ein af mýtunum á vefnum er að notendaprófanir séu of kostnaðarsamar og tímafrekar. Þess vegna ákveða vefteymi að sleppa prófunum enda stöðug barátta við tímafjandann og kostnað. Ég hef fullan skilning á því að vefstjórar hafa takmörkuð fjárráð en ég hef enga samúð með þeim sem halda á lofti þessari mýtu. Hún á sér enga stoð og þarf að víkja fyrir staðreyndum. 

Í notendaprófunum liggur að mínu mati besta fjárfesting vefstjórans. Notendaprófanir eru verkfæri sem gefa tækifæri til að ná hámarksárangri á vefnum þ.e. ef maður nýtir þær rétt. Það er afskaplega lítið gagn af notendaprófunum sem eru ekki rýndar til gagns og unnið almennilega úr.

Reynsla mín er að eftir því sem notendaprófanir eru umfangsmeiri og ítarlegri skýrslum er skilað þeim mun minni árangri skila þær. Hljómar þversagnakennt en þannig er það.

Það sem skilar bestum árangri er að gera þær oft og hafa umfangslitlar. Þetta er alveg í samræmi við það sem sérfræðingar eins og Jakob Nielsen og Steve Krug predika.

Gullnar reglur í notendaprófunum

Steve Krug og Jakob Nielsen, eru sammála um þrjú megin prinsipp varðandi notendaprófanir á vefnum:

  1. Prófið lítið í einu en oft
  2. Hafið þátttakendur fáa, Jakob talar um 5 en Steve 3-4
  3. Ekki hafa of miklar áhyggjur af því hverja þið prófið. Flestir notendur komast að helstu vandamálum þó þeir séu ekki hluti af þínum markhóp

Best er að gera prófanir á öllum stigum. En munið að ein prófun er betri en engin. Í öllum bænum ekki hengja haus ef þið hafið nú þegar sett vef í loftið án prófunar. Það er aldrei of seint að bæta vefinn.

  • Prófið núverandi vef og/eða þá sem eru í samkeppni við þig
  • Prófið skissur og hönnunartillögur
  • Prófið „wireframe“ áður en farið er í framleiðslu
  • Prófið reglulega meðan vefurinn í vinnslu og fyrir opnun
  • Haldið áfram að gera prófanir eftir að vefur fer í loftið

Hvernig fer notendaprófun fram?

Í sinni einföldustu mynd getur notendaprófun verið þannig að þú sem eigandi vefsins sest niður með fjölskyldumeðlimi, vini eða hverjum sem þú nærð í og biður viðkomandi að rýna vefinn þinn stutta stund og færð honum nokkur einföld verkefni.

  1. Spurðu hann um hver upplifunin hafi verið af forsíðu vefsins. Fáðu hann til að skoða vefinn í fleiri en einu tæki; borðtölvu, spjaldtölvu eða síma.
  2. Fáðu hann næst til að leysa 2-3 lykilverkefni. Og fylgstu með því hvernig hann ratar um vefinn en haltu þig sjálf(ur) til hlés.
  3. Ekki gleyma að biðja „fórnarlambið“ þitt um að finna „augljósu“ hlutina eins og staðsetningu, símanúmer og netfang.
  4. Þakkaðu svo fyrir þig og reyndu að ná í 2-3 til viðbótar. Kannski nágrannann? Tilvalið að gefa sér ástæðu til að fara í heimsókn.
  5. Skrifaðu niður það sem þú tókst eftir að þarf lagfæringar við. Ekki bíða með einföldustu lagfæringarnar, eins og ranga notkun fyrirsagna, hugtaka eða stafsetningarvillur.
  6. Gerðu svo áætlun um hvernig þú lagar aðra hluti sem geta krafist nýrrar hönnunar eða forritunar.

Þetta þarf ekki að kosta neitt, ef þú vilt fá smá góðvild þá er í lagi að bjóða kaffi og með því. Eða öl?

Ef þú vilt taka notendaprófanir skrefinu lengra þá mæli ég með að þú fáir sérfræðing til að annast prófanir. Í öllu falli er árangursríkara að fá einhvern annan en þig sem eiganda vefsins til að annast prófunina. Við erum tilfinningaverur og sá sem prófar vefinn veit líklega að þú lagðir nótt við dag við smíðina og er því kannski ekki tilbúinn til að vera alveg hreinskilinn. En færi létt með að segja sína skoðun við einhvern annan.

Taktu fyrsta skrefið

Byrjaðu smátt. Gerðu fyrst prófun með maka þínum eða vini. Taktu svo næstu skref og sjáðu hverju þær skila. Ég hef engar áhyggjur af því að þú farir til baka í gamla farið.

Þetta snýst um ákvörðun. Ákvörðun um að hafa hagsmuni notenda ávallt að leiðarljósi í þinni vefþróun. Ef þú ert með fyrirtæki þá myndi ég mæla með að setja ákvæði í vefstefnuna þar sem fyrirtækið þitt gengst við þessari speki. Þá gefurðu ekki þennan þátt eftir þegar þú gerir fjárhagsáætlun næst um vefmálin.

Ef þú heldur úti litlum vef þá þarftu kannski ekki að gera fjárhagsáætlun en skrifaðu samt þína eigin vefspeki eða stefnu þar sem þú lýsir því yfir að notendur á vefnum skuli heiðraðir með reglulegum prófunum. Sem þurfa ekki að kosta neitt!

Mynd í haus er fengin frá boagworld.com

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.