Það er komið að leiðarlokum. Fúnksjón vefráðgjöf sem hóf starfsemi 1. ágúst 2013 verður sett í ótímabundinn dvala frá og með 1. ágúst 2019.

Fúnksjón var stofnuð sem vefráðgjöf Sigurjóns Ólafssonar þann 1. ágúst 2013 og starfaði í nákvæmlega sex ár en síðasti dagur ráðgjafarinnar verður 31. júlí 2019. Þann 1. ágúst 2019 hefur Sigurjón störf sem sviðsstjóri þjónustu og þróunar hjá Hafnarfjarðarbæ.

Markmið Fúnksjón frá upphafi var að afla virðingu fyrir efni á vef, efla fræðslu fyrir vefstjóra og hvetja til breyttrar forgangsröðunar í vefverkefnum.

Skýrt markmið frá upphafi var að vaxa ekki. Fúnksjón var alla tíð eins manns ráðgjöf, óháð öllum hugbúnaði, vefstofum og öðrum fyrirtækjum eða sérfræðingum.

Ég var lánsamur með verkefni og viðskiptavini eins og ég hef rakið í ársuppgjörum Fúnksjón. Ráðgjöfin gekk allan tímann vel og veltan óx á hverju starfsári.

Auk ráðgjafastarfa sinnt ég stöðu stundakennara og síðar aðjúnkts í vefmiðlun við Háskóla Íslands frá 2011-2019 og kenndi um nokkurra ára skeið við Vefskóla Tækniskóla Íslands.

Í vefmálum í yfir 20 ár

Ég hef starfað við vefmál frá 1997 bæði hjá opinberum stofnunum (Siglingastofnun og Háskóla Íslands) og í einkageiranum (Kaupþingi, Íslandsbanka og PwC).

Mitt teymi hjá Kaupþingi hlaut viðurkenningu Nielsen Norman Group fyrir eitt af 10 bestu innrinetum 2009.

Ég flyt reglulega fyrirlestra innanlands og haldið nokkra utan Íslands. Er virkur í vefsamfélaginu, sat fimm ár í stjórn faghóps um vefstjórnun hjá Ský, þarf af sem formaður í þrjú ár. Er sendiherra Íslands hjá EuroIA, evrópskum upplýsingaarkitektum.

Ég hef lokið MA-prófi í alþjóðastjórnmálum frá University of Amsterdam og BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Er áhugamaður um trúarbrögð og hef sótt ýmis námskeið á því sviði.

Áhrifavaldar mínir í vefmálum eru nokkrir. Þeir helstu fylla allir flokk hvítra karla á miðjum aldri en það er ekki meðvitað.

Í byrjun árs 2015 kom út bók eftir mig – Bókin um vefinn. Hún er hugsuð sem handbók fyrir vefstjóra og aðra sem vinna við vefstjórn.

Nokkrir vefir sem ég hef unnið við hafa hlotið vefverðlaun hjá SVEF:

Auk þeirra hafa fjölmargir aðrir vefir sem ég hef komið að verið tilnefndir til vefverðlauna.

Vefurinn minn var tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna 2013 í flokknum Besti einstaklingsvefurinn. Fyrir það er ég þakklátur.

Tilnefning til Íslensku vefverðlaunanna 2013

 

Vefspeki

Mínar vefpredikanir eru auðlærðar. Það má einfalda og bæta alla vefi.

Besta leiðin til að kynnast minni vefspeki er í gegnum greinaskrifin. Ég vil efla virðingu fyrir efni, nytsemi og undirbúningi vefverkefna.

Einkunnarorð Fúnksjón eru „gerum betri vefi“. Það á ekki að flækja hlutina á vefnum.

Vefvinna snýst fyrst og fremst um almenna skynsemi og einfaldleika.

Að gera hluti einfalda er áskorun. Ég hef tekist á við þær nokkrar og vil miðla reynslu minni.

Ég sæki hugmyndir í eigin reynsluheim, starf, fjölskyldu, áhugamál, lestur og mannleg samskipti. Flestar hugmyndir verða til í sundi.

Mér er annt um orðsporið. Tek ekki að mér verkefni nema ég viti að sérþekking mín njóti sín. Vísa hiklaust á aðra sérfræðinga.

15 sannfæringar í vefmálum

Þegar ég hóf mína starfsemi tók ég saman 15 atriði sem ég hafði sannfæringu fyrir í vefmálum. Í öllum megin atriðum standa þessi atriði enn fyrir sínu.