Fyrsta heila starfsár Fúnksjón vefráðgjafar var lærdómsríkt og gjöfult. Viðtökur hafa verið framar vonum sem ég er þakklátur fyrir. Það er meðbyr með vefmálum i samfélaginu þó hjól efnahagslífsins séu kannski ekki komin á fullt. Fyrirtæki átta sig á að fjárfesting í vefmálum borgar sig og forgangsraða öðruvísi en áður.

Skrifin og Fróðleikur um vefmál

Fróðleikur um vefmál - Fréttabréf FúnksjónAnnir undanfarið hafa bitnað talsvert á eigin skrifum. Pistlum á vefnum mínum fer fækkandi og markmið mitt að gefa út fréttabréf á tveggja vikna fresti hafa ekki náðst. Eitthvað verður undan að láta.

Fréttabréfinu – Fróðleikur um vefmál – hefur verið vel tekið. Þegar fréttabréfið hóf göngu sína í lok apríl 2014 voru 62 áskrifendur en það voru dyggir lesendur að pistlum á funksjon.net sem fluttust nauðungarflutningum í nýtt áskriftarform. Í dag eru áskrifendur 144. Ég er mjög sáttur með þennan fjölda því megnið af áskrifendum les fréttabréfið samkvæmt tölfræði MailChimp og það hlutfall ásamt þeim sem smella á tengla úr fréttabréfinu er langt umfram öll meðaltöl sem gefin eru upp. Takk dyggu lesendur! Já og afsakið skrifleysið síðustu tvo mánuði.

En skoðum aðeins betur tölfræði ársins um skrifin:

 • 26 greinar birtar á funksjon.net og af þeim 4 viðtöl við fólk í vefbransanum sem er nýr flokkur í blogginu
 • 144 áskrifendur að Fróðleik um vefmál í árslok
 • 11 fréttabréf gefin út
 • 1 grein / viðtal skrifað í Tölvumál Ský (Viðtal við Gumma Sig)
 • 6 greinar birtar í öðrum vefritum / bloggum
 • 1 handriti skilað inn að bók (Bókin um vefinn: Handbók fyrir vefstjórnendur) sem vonandi kemur út í febrúar 2015

Kennslan og nemendur

Annað hryggjarstykkið í starfsemi Fúnksjón er kennsla og hitt er vefráðgjöf. Námskeiðum og nemendum fjölgar ár frá ári. Ég er samt að reyna að passa mig að láta ekki kennsluna taka yfirhöndina því þó ég hafi mikla ánægju af kennslunni þá þarf ráðgjöfin sífellt meiri tíma.

Skoðum tölfræði um kennslu, fyrirlestra og nemendur:

 • 2 opinberir fyrirlestrar og nokkrir óopinberir
 • 7 námskeið kennd hjá þremur aðilum (Endurmenntun, Iðan og Vefakademía)
 • 4 námskeið fyrir MA-nemendur í Háskóla Íslands á Hugvísinda- og Félagsvísindasviði
 • 2 sérsniðin námskeið fyrir fyrirtæki vegna skrifa fyrir vefinn
 • 200 (ca) nemendur í heild hafa sótt námskeið mín á árinu
 • 300 (ca) manns hafa hlýtt á fyrirlestra sem ég hef haldið á árinu
 • 6 nemendur aðstoðaðir í verkefnum við Háskóla Íslands

Tölfræði funksjon.net

Umferð um vefinn minn var ágæt á liðnu ári en hún var engu að síður um 20% minni en árið 2013. Stóran hluta skýringarinnar má rekja til einnar greinar sem naut fádæma vinsælda árið 2013 um Fólk sem lýgur á Facebook. Engin grein fékk viðlíka lestur árið 2014. En ég kvarta ekki og held mig við prinsippið að magn sé ekki sama og gæði hér!

Umferð á vefnum 2014

 

 • 5.755 gestir
 • 8.818 heimsóknir
 • 18.874 síður skoðaðar
 • 2,14 síður í hverri heimsókn
 • 2,13 mínútur í meðaldvalartíma
 • 61,85% brotthvarfshlutfall

Hvaðan komu heimsóknirnar?
Vefurinn minn fær í stórauknum mæli heimsóknir frá leitarvélum og Facebook er drjúgt í að draga til sín lesendur.

 • 35% frá samfélagsmiðlum
 • 27% í gegnum leitarvélar
 • 23% beint á vefinn
 • 14% vísanir af öðrum vefjum

Mest lesnu greinarnar á funksjon.net
Það var enginn risa “hitter” á árinu 2014 en grein um borgarstjórnarkosningar fékk góða dreifingu. Annars er ég sáttur við minn dygga hóp sem les flest það sem ég birti á vefnum og þessi hópur skiptir mig mestu máli.

Viðskiptavinirnir

Á árinu hef ég unnið fyrir um 30 fyrirtæki/stofnanir/félagasamtök í smærri og stærri verkefnum. Án þess að hafa nákvæmar mælingar á því hvernig viðskiptavinir koma til mín þá er engum blöðum um það að fletta að flest verkefni koma í kjölfar námskeiða og fyrirlestra sem ég held og svo bloggskrifa. Þökk sé Google. Í vaxandi mæli eru viðskiptavinir einnig að koma í gegnum tilvísanir frá eldri viðskiptavinum.

Flest verkefni hafa verið í undirbúningi nýrra vefverkefna en á því sviði hef ég aðstoðað fyrirtæki á borð við:

 • Eimskip
 • Náttúrufræðistofnun
 • Ó. Johnson & Kaaber
 • Rikislögreglustjóra
 • Samgöngustofu
 • Starfsmennt
 • Útfararstofu kirkjugarðanna
 • Vini Vatnajökuls

Þrír nýir vefir litu dagsins ljós þar sem mín ráðgjöf átti hlut að máli

Auk þessara eru fjölmargir vefir í farvatninu þar sem ég hef komið að ráðgjöf. Sumir munu ekki líta opinberlega dagsins ljós (innri vefir) og önnur verkefni eru á sviði stefnumótunar, greiningar eða annarar vefráðgjafar þar sem nýr vefur er ekki markmiðið.

Ég hef ennfremur aðstoðað fyrirtæki og sveitarfélag við mótun vefstefnu. Fyrirtæki, opinber hlutafélög og stofnanir leita í auknum mæli til mín með innri vefs verkefni og stærsta einstaka verkefnið á seinni hluta ársins var einmitt á því sviði.

Að lokum hef ég sinnt fræðslu víða, í formi kennslu, námskeiða, fyrirlestra og vinnustofa eins og kemur fram hér að ofan. Þar hafa komið við sögu banki, opinber stofnun, sveitarfélag og fræðsluaðilar eins og Vefakademía Hugsmiðjunnar, Endurmenntun HÍ og Háskóli Íslands.

Mislukkaðasta varan

Nú kunna lesendur að halda að þetta ár hafi verið samfelld sigurganga. Ég gerði mistök á leiðinni en ekkert toppar þó viðtökur við nýrri vöru sem ég nefndi Læknisvitjun á vef.

Varan var kynnt í lok árs 2013 og í kynningarskyni bauð ég lesendum mínum fría “læknisvitjun” í byrjun 2014 sem nokkrir þáðu og lofaði ágætu um framhaldið. En svo leið og beið. Þann 31. desember 2014 hafði enginn (0, já núll) pantað þessa þjónustu. Þannig fór fyrir vöruþróun Fúnksjón!. Hvaða lærdóm dreg ég af þessu? Jú þetta var of ódýrt, of gott til að vera satt. Að láta sérfræðing greina ástand vefs fyrir rúmlega tíuþúsundkall. Auðvitað vill fólk borga meira. Það segir sig sjálft.

Fúnksjón slf varð til

Á síðasta virka degi ársins varð loks til félag utan um reksturinn. Nýja bókhaldsfyrirtækið mitt ráðlagði mér að fara úr einstaklingsfyrirtæki í samlagsfélag (slf) sem ég gerði. Ég er hlýðinn að eðlisfari og ef það er eitthvað sem ég er vitlaus í og hlýði í blindni ráðgjöf annarra þá eru það bókhaldsmál. Lof sé fyrir stétt endurskoðenda. Svo verður lika miklu skemmtilegra að hafa alvöru fyrirtækjakennitölu (7012141610) í stað minnar prívat í reikningagerðinni.

Verkefnastaðan 2015: Byrjaður að bóka fyrir mars

Fyrir utan megin markmið Fúnksjón vefráðgjafar að aðstoða fyrirtæki við að gera einfaldari og betri vefi þá er það nánast meitlað í stein að fjölgun starfsmanna Fúnksjón er óheimil. Ógn steðjar að þessu markmiði í uppphafi nýs árs.

Í lok ársins 2014 voru nokkur stór verkefni bókuð og því er ljóst að Fúnksjón mun ekki byrja fleiri ný verkefni fyrr en í mars 2015. Fyrirliggjandi verkefni verða að fá nauðsynlega athygli. Ég vil beina tilmælum til áhugasamra að bóka sem fyrst ráðgjöf ef þau vilja nýta sér vefráðgjöf mína á fyrri hluta ársins. Því ég mun standa eins lengi ég get við grunngildi félagsins að fjölga ekki starfsmönnum.

Skrifstofan: Frá Klapparstíg á Laugaveg

Frá upphafi rekstrar hef ég haft skrifstofu í miðbæ Reykjavikur eða á Klapparstíg 28 sem hefur verið nokkurs konar vagga vefiðnaðarins á Íslandi en þar hafa mörg fyrirtæki slitið barnsskónum. En húsið verður í byrjun árs nýtt í þágu hóteliðnaðarins á Íslandi sem er auðvitað göfugt í sjálfu sér.

Það er þó aðeins tilhlökkun tengd flutningunum og ekki verður farið langt. Laugavegur 13 verða ný heimkynni og auk Fúnksjón verður hin nýja vefstofa Lúllabúð ásamt hinni rótgrónu Sjá ráðgjöf á sömu hæð. Við bjóðum í partý á nýju ári, það er ljóst!

Annars er skrifstofa fyrir mér ekki heilög. Ég vinn oft heima þegar það hentar, stundum á bókasafni, kaffihúsi eða í sumarbústað. Þannig verður 2015 vafalaust líka. Skrifstofan er þar sem tölvan mín er.

Allir vita að góðar hugmyndir verða ekki til við skrifborð. Þær verða til þegar fólk skiptir um umhverfi og fer t.d. í göngutúr, sund eða hjólar. Flestar hugmyndir mínar verða til í sundi. Á árinu 2014 fór ég alls í 157 sundferðir í hádeginu (já ok svona um það bil) og í nánast hverri sundferð næ ég að skerpa á einhverri pælingu, finn lausn á verkefni eða fæ góða hugmynd. Fjárfesting sem margborgar sig.

Gleðilegt nýtt vefár!

Ég er spenntur fyrir nýju ári. Þegar maður er svo heppinn að starfa við það sem manni finnst skemmtilegast, ræður sér sjálfur, er hamingjusamur í einkalífi og finnur á viðskiptavinum að eitthvað gerir maður rétt er gaman að lifa.

Ég hlakka til samstarfs við nýja viðskiptavini og kynnast nýjum nemendum. Ekki síður er eftirvænting hjá mér að styrkja tengsl við núverandi viðskiptavini og nemendur.

Takk fyrir samstarfið og lesturinn á árinu sem er liðið. Verið dugleg að hugsa um vefinn ykkar á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.