Stafræn mál og umbætur í þjónustu hins opinbera fá góða athygli í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2025 – 2029. Þetta er mikið fagnaðarefni, með fullum efndum á því sem þarna kemur fram er óhætt að vera ansi bjartsýnn fyrir komandi ár í stafvæðingu opinberrar þjónustu. Það á meira að segja að gera stofnunum skylt að veita aðgengi að gögnum!

Í nýlegri grein sem ég birti um smákónga ríkisins fjallaði ég um tækifærin í að auka skilvirkni og gæði í opinberri þjónustu með því að fækka og styrkja stofnanir, bæta aðgengi að gögnum og styrkja umboð Stafræns Íslands til athafna. Inntak fjármálaáætlunar kemur vel til móts við það sem kallað var eftir þar.

Greinin sem ég birti vakti ansi mikla athygli og umræðu á Linkedin. Þar tóku margir til máls sem ég met mikils úr ólíkum áttum. Þessi umræða er mjög þörf og ný fjármálaáætlun er gott innlegg í áframhaldandi umræðu um þjónustu hins opinbera.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég hafi lesið alla fjármálaáætlunina en ég setti stafrænu gleraugun á efnið og rýndi sérstaklega kafla 3.5.2. Góð og skilvirk opinber þjónusta. Þar eru gefin mjög góð skilaboð sem lofa góðu fyrir þjónustu hins opinbera á næstu árum því tækifærin eru svo sannarlega til staðar.

Sigurður Ingi kynnir fjármálaáætlun

Í kynningu nýs fjármálaráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, minntist hann sérstaklega mikilvægi stafrænnar þjónustu, fjárfestingu í stafvæðingu, mikilvægi Stafræns Íslands og hagræðingu með sameiningu stofnana til að styrkja þjónustu hins opinbera. Þetta gefur góð fyrirheit fyrir næstu ár.

Í kafla um áherslur og stefnumið kemur m.a. fram:

Líkt og kemur fram í umbótakafla fjármálaáætlunar verður settur aukinn kraftur í að auka skilvirkni hins opinbera og endurmeta stofnanaskipulagið við rekstur opinberrar þjónustu. Miklir möguleikar liggja þar við að nýta fjármagn betur og gera stofnanir burðugri til að veita þjónustu sem þörf er á. Nú þegar hefur náðst mikill árangur í að auka framleiðni hins opinbera í gegnum verkefni Stafræns Íslands og hafa sýslumannsembættin t.d. náð að auka hraða afgreiðslunnar markvert með aukinni stafvæðingu á sama tíma og hagrætt hefur verið í rekstrinum.

Þarna er vísað sérstaklega til árangurs verkefna Stafræns Íslands með sýslumannsembættunum með því að auka hraða í afgreiðslu og hagræðingu í rekstri. Það væri virkilega áhugavert að fá mælingu á hversu miklu þessi hagræðing hefur skilað í fjármunum, færri handtökum, minni prentun og minna kolefnisspori. Með því að reikna út slíkan ávinning fæst enn meiri hvati til að halda áfram á þessari braut. Stafrænu verkefnin hjá sýslumannsembættunum eru verulega ánægjuleg og óhætt að segja að það hafi orðið mikil breyting á þjónustunni öllum til góða.

Í kaflanum 3.5.2 Góð og skilvirk opinber þjónusta er mikil áhersla á stafvæðingu þjónustunnar og jafna aðgengi allra að þjónustu. Afar mikilvægar áherslur þar sem m.a. kemur fram að stefna stjórnvalda er að stafræn þjónusta sé helsta samskiptaleið almennings við hið opinbera á sama tíma og unnið verður að því að samræma aðrar þjónustuleiðir.

Skilvirk opinber þjónusta

Mjög ánægjulegt er að sjá að vísað er sérstaklega til hagnýtingu gagna og þar er sagt fullum fetum að

Hagnýting gagna er svo grundvöllur þess að ná aukinni skilvirkni í starfsemi hins opinbera.

Ennfremur segir (feitletrun er mín);

Svo hægt sé að miðla gögnum og hagnýta þau þarf umgjörð og stjórnskipulag að styðja við aukna notkun. Ljóst er að vinna þarf með stofnunum til þess að bæta það gagnaumhverfi sem unnið er í og sameina krafta innan kerfis til að auðvelda miðlun, aðgengi og notkun gagna meðal annars með aukinni notkun vefþjónusta. Sett verða tæknileg viðmið í upplýsingatækni og horft er til þess að opinberum aðilum verði skylt að veita aðgengi að gögnum sem nauðsynleg eru í starfsemi til annarra opinberra aðila.

Hér er snert einmitt á mikilvægum atriðum sem voru nefnd sérstaklega í greininni um smákóngana og umræðunni sem átti sér stað á Linkedin í kjölfarið. Ánægðastur er ég að sjá textann að stofununum verði skylt að veita aðgengi að gögnum sem nauðsynlegt eru í starfsemi til annarra aðila. Bravó!

Áfram skal vitnað í þennan ágæta kafla um opinbera þjónustu. Frábær fyrirheit sem hér koma fram. Núna þarf aðeins efndir og eftirfylgni.

Samhliða verður fjárfest í tækniinnviðum og lögð áhersla á stafræna færni starfsfólks. Þá mun framboð stafrænnar þjónustu halda áfram að aukast sem tryggir gott aðgengi og skilvirka stjórnsýslu. Til framtíðar má þannig sjá fyrir sér að ríkisreksturinn samanstandi af færri og árangursdrifnum stofnunum þar sem starfsfólk hefur skýran tilgang og þjónustan er veitt út frá þörfum samfélagsins á hagkvæman hátt.

Að lokum vil ég vísa til svonefndrar rammagreinar sem má finna víða í ritinu. Rammagrein 9 fjallar um færri og öflugri stofnanir. Undirritaður tekur undir allt sem sagt er hér.

Rammagrein 9: Færri og öflugri stofnanir

Eitt af forgangsmálum stjórnvalda eru breytingar á stofnanakerfinu en með færri og öflugri stofnunum mætti bæta nýtingu fjármuna umtalsvert. Ríkisendurskoðandi hefur m.a. lýst því sjónarmiði að smæð stofnana sé í flestum tilvikum hamlandi í rekstrar- og faglegu tilliti og því sé nauðsynlegt að efla stofnanakerfið svo að það hafi burði til að takast á við viðfangsefnin.

Stofnanir ríkisins eru í dag 161 talsins og hefur þeim fækkað um 5 á kjörtímabilinu. Í lok 10. áratugarins voru stofnanir 250 talsins en með samstilltu átaki var þeim fækkað hratt og fækkaði stofnunum um 37% til ársins 2021. Áhersla var lögð á tilfærslu verkefna í hlutafélög ásamt því að verkefni voru færð til sveitarstjórnarstigsins.

Með stafvæðingu og bættri hagnýtingu gagna myndast aukin tækifæri til að horfa á verkefnin út frá sameiginlegum viðfangsefnum í stað þess að hver stofnun sinni afmörkuðum verkefnum. Með þessu má sameina ýmsar stofnanir sem hafa sömu eða sambærileg verkefni í öflugar þekkingarstofnanir og bæta þannig þjónustu við samfélagið.

Ýmsar breytingar á stofnanakerfinu eru í farvatninu með fækkun niður í 154 stofnanir. Þarna vega stærst sameiningar á stofnunum umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytis úr 13 í 8 sem hefur það að markmiði að auka samþættingu verkefna og samvinnu á milli stofnana. Vinnan var unnin í góðu samstarfi með starfsfólki út frá faglegri greiningu á viðfangsefninu og á sameiningin að skila sér í kröftugri og faglega öflugri starfseiningum.

Á slíkum forsendum mætti gera greiningu um endurskipulagningu stofnanakerfisins með það að markmiði að mynda öflugar þekkingarstofnanir sem hafa burði til að takast á við þær áskoranir sem ríkisreksturinn stendur frammi fyrir.

Á undanförnum árum hef ég kallað eftir stefnu og aðgerðum í þessa veru sem nefnd eru í fjármálaáætlun. Tækifærin eru á þeim skala að það verður ekki litið fram hjá þeim. Margt hefur verið unnið vel á síðustu árum ekki síst með tilkomu Stafræns Íslands. Veitum stjórnvöldum áfram aðhald með sína stefnu, vöktum aðgerðir og mælum árangurinn. Komandi ár gefa góð fyrirheit í þjónustu hins opinbera. Sameining stofnana er vandasamt verkefni ekki síst út frá starfsfólkinu en með því að fá fólkið í lið með sér og gefa því hlutdeild í ávinningnum er líklegt að niðurstaðan verði góð fyrir alla, ríkiskassann, bættri þjónustu við íbúa, jákvæð umhverfisáhrif og ánægðara starfsfólk.