Í auglýsingum um starf vefstjóra er yfirleitt ekki gerð sterk krafa um tæknikunnáttu en þó er talið til tekna að þekkja til vefumsjónarkerfa, myndvinnsluforrita auk annarra nauðsynlegra þátta eins og tungumálaþekkingar. Ég er sjálfur ekki mikill tæknikall og þaðan af síður tækjafrík.

Það hamlar mér lítið sem ekkert í starfi að hafa ekki kóðað vefi í æsku, legið í VisualBasic og fiktað í gagnagrunnum. En hinu er ekki að neita að ákveðin grunntækniþekking er nauðsynleg fyrir vefstjórann ef honum á að líða vel í starfi. Það eru ótal tilvik þar sem vefstjóri þarf að geta haft skilning á tækninni t.d. sem knýr vefinn, þekkja vel til HTML, geta lesið aðeins í kóðann, þekkja helstu hugtök varðandi vefþjóna, nafnaþjóna og hvað allt þetta heitir. Meira um kröfur til vefstjóra.

Maður á að þekkja sín takmörk en líka að ná ákveðnu lágmarki þegar kemur að skilningi á tækninni. Að öðrum kosti er erfitt að stýra för í vefverkefnum. Tæknideildin má ekki máta mann í nokkrum leikjum á fyrsta fundi.

Skoðum nokkur hugtök.

Internet þjónustuaðili – ISP
Það er gott að vita hvaða hlutverki internet þjónustuaðili gegnir eða ISP í daglegu tali. Án ISP gætum við ekki tengst netinu eða birt vefsíður. Meginhlutverk hans er að opna fyrir beiðni um síðu á þá tölvu þar sem vefurinn er vistaður.

ISP þarf fyrst að vita hvar tölvan er og fá samband við nafnaþjón eða DNS sem er eins konar símabók með IP heimilisföngum en hver tölva er með sitt eigið IP heimilisfang sem hægt er að fletta upp á netinu. Prófið t.d. að setja inn IP addressuna 12.129.147.65 í vafra og þá kemur upp vefur Washington Post. Það má líta á IP addressuna sem símanúmer tölvunnar. En svona talnaruna hentar ekki vel til að muna, þess vegna eru vefir með sér lén eins og í þessu tilviki washingtonpost.com.

Nafnaþjónn – DNS
Nafnaþjónn eða DNS er tölva sem tengir saman lénaheiti og IP heimilisfang. Eftir að DNS-inn hefur breytt léninu í IP addressu og upplýst ISP-ann þá sendir ISP þessa beiðni um tiltekna síðu á vefþjóninn.

Vefþjónn (e. server)
Vefþjónn er tölva sem hýsir vefinn þinn. Sú tölva er ekki mikið frábrugðinn venjulegri tölvu og í reynd getur heimilistölvan hýst vefinn. Þegar vefþjónninn fær beiðnina frá notandanum finnur hann þessa tilteknu síðu og sendir áfram öll skjöl sem henni tengjast til notandans í gegnum ISP. Þá birtist vefsíðan í vafra notandans.

Allt þetta gerist á nokkrum millisekúndum en það geta auðvitað komið upp vandamál og þau eru helst tengd áframvísunum (redirection) á léni, tengingum eða hægu niðurhali.

Ástæður fyrir því að vefur birtist ekki
Þegar vefur er farinn í loftið koma stundum skilaboð hjá notendum að þeir geti ekki séð vefinn eða sá gamli kemur upp. Líklegustu skýringuna er að finna í nafnaþjóninum DNS. Hann hefur líklega ekki fengið upplýsingar um breytinguna og vel að merkja að það eru ekkert smá margir DNS í heiminum og þeir eru ekki allir uppfærðir á sama tíma. Það má áætla allt að 72 klukkustundir þar til nýi vefurinn birtist um allan heim. En vinir okkar í tæknideildinni hafa ráð í erminni til að flýta fyrir þessu, það er til stilling sem heitir “time to live” og þann tíma er hægt að stytta en best er að hafa samband um þetta atriði við kerfisstjóra í tíma.

En svo eru aðrar ástæður fyrir því að vefurinn birtist ekki. Tenging getur legið niðri og þá er oft ástæðunnar að leita í vefþjóninum. Ef þið fáið kvartanir um að vefurinn liggi niðri án þess að þið merkið það sjálf þá er best að afla eins mikilla upplýsinga frá notandum og hægt er til að láta tæknideild í té. Spyrjið spurninga á borð við:

  • geturðu tengst öðrum vefjum?
  • hversu lengi hefur vandamálið verið?
  • geturðu tengst vefnum frá annarri tölvu?
  • hvaða vafra ertu að nota?
  • hefurðu fengið villuskilaboð og þá hver?

Niðurhal (e. download)
Niðurhal ræðst af tveimur þáttum, stærð vefsíðna og hversu öflug tenging notandans er. Þú hefur bara stjórn á fyrra atriðinu og getur reynt að takmarka stærð vefsíðna á þínum vef. Með öflugri tengingum notenda þá hafa vefstjórar minni áhyggjur af því að lágmarka stærð síðna og hiklaust sett inn myndbönd og stærri myndir.

Núna veistu hvernig síður birtast en hvernig eru þær búnar til?  Meira um það í næsta pistli.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.