Áhrifavaldar - Nielsen, Krug, McGovern og Boag

Það skal fúslega játað að ég er undir áhrifum nokkurra leiðtoga í vefiðnaðinum. Mín speki er innblásinn (mismikið) af þessum höfundum sem ég hvet lesendur til að kynna sér nánar.

  • Jakob Nielsen

  • Brautryðjandi í nytsemi og vefgúrú

Árið 2001 las ég bók Jakob Nielsen Designing Web Usability. Sú bók opnaði augu mín fyrir grundvallaratriðum í skrifum fyrir vefinn og skipulagningu vefja með hagsmuni notenda að leiðarljósi. Honum hefur fatast nokkuð flugið hin síðari ár en mörg grunn prinsipp frá honum eru í fullu gildi. Ég sótti workshop NNGroup 2002 og tók þá í spaðann á gúrúinum!

  • Steve Krug

  • Höfundur Don't make me think!

Árið 2004 varð ég fyrir opinberun í vefmálum þegar ég las bók Steve Krug Don’t make me think. Þetta er líklega besta bók sem hefur verið skrifuð um vefmál og nytsemi á vefnum. Enginn vefáhugamaður ætti að láta hana fram hjá sér fara. Hann er skriflatur en allt sem kemur frá honum jaðrar við snilld. Ég fór á námskeið hjá Steve 2006 og kynntist honum lítillega.

  • Gerry McGovern

  • Írinn geðþekki, höfundur Stranger's Long Neck

Gerry McGovern er virtur sérfræðingur í skipulagi stórra vefja og innri vefja. Hann hefur sinnt ráðgjöf um vefmál vel á annan áratug, gefið út bækur og heldur úti vikulegum pistlum um vefmál. Gerry leggur höfuðáherslu á lykilverkefni og nálgun út frá þörfum viðskiptavina. Ég hitti Gerry á EuroIA 2012 í Róm og á ráðstefnunni An Event Apart í Boston 2016, frábær fyrirlesari og geðþekkur náungi.

  • Paul Boag

  • Maður sem skilur þarfir vefstjóra

Árið 2010 „uppgötvaði“ ég Paul Boag og bók hans Website Owner’s Manual. Allir vefstjórar ættu að skoða þá bók. Á vefnum boagworld.com birtir hann greinar, heldur úti hlaðvarpi (podcasti) og þar er jafnframt samfélag þeirra sem vinna í vefmálum. Paul hitti ég í janúar 2017 þegar hann talaði á ráðstefnunni IceWeb en þá tókst mér einnig að fá hann í viðtal.

 

Uppfært 1. ágúst 2017