Vefstjóri þarf ekki að búa yfir yfirgripsmikilli tækniþekkingu, það er misskilningur. En hann þarf að tileinka sér lágmarksþekkingu og ekki síst þekkja grundvallaratriðin í HTML og lykilhugtök til að geta átt samskipti við tæknimenn.

Því verður seint haldið fram að ég sé mikill tæknimaður og verð líklega aldrei. Lengst af mínum starfsferli hef ég sinnt vefstjórn og í huga almennings þýðir það að maður er „góður í tölvum“.

Ég er ekkert „góður í tölvum“ og hef reyndar frekar takmarkaðan áhuga á tækni og græjum. Stundum hef ég hugsað hvort ekki sé nauðsynlegt fyrir mig að breyta þessu til að vegna vel í starfi en svo hef ég alltaf komist að sömu niðurstöðu. Ég er bara ekki þessi tæknitýpa. Það vantar einhver element í mig á þessu sviði. Það þýðir líka að ég hef talsverða samúð með þeim sem er svipað ástatt um.

Ég játa að þetta hefur stundum verið hamlandi en með reynslunni hefur bæði safnast upp smá þekking á tækninni og þroski til að átta sig á að maður þarf ekki að kunna skil á öllum mögulegum hlutum. Ég er jú bara „heimilislæknir“, ekki hjartaskurðlæknir eða sérfræðingur í kvensjúkdómum ef við rifjum upp þá ágætu samlíkingu við starf vefstjórans. Hlutverk vefstjórans er ekki síst að greina hluti og vísa sumum verkum áfram á aðra sérfræðinga.

Þrátt fyrir þennan ófullkomleika hef ég komist í gegnum ýmsar tækniraunir. Ég hef t.d. klórað mig í gegnum að setja upp nokkra vefi frá A til Ö með aðstoð WordPress vefumsjónarkerfisins, hef unnið talsvert í HTML, get bjargað mér í myndvinnslu fyrir vefinn og er býsna sleipur í notkun margra vefumsjónarkerfa. Ég hef tekið ótal fundi og rökrætt við kerfisstjóra um rekstur og uppsetningu vefja (þó þeir hafi vafalaust oft brosað í kampinn) svo ekki sé minnst á forritara og vef- og viðmótshönnuði um tæknilegar útfærslur á vefnum.

Reynslan hefur kennt mér að þrátt fyrir eigin tæknilegu fötlun þá er hverjum vefstjóra nauðsynlegt að kunna grundvallarskil á tækni vefsins ef honum á að líða vel í starfi. Hann verður að skilja helstu skipanir í HTML sem er undirstaða vefsins, geta lesið aðeins út úr stílsniðsskjölum, CSS, og verið viðræðuhæfur um tæknimál vefsins.

Það er líka mikilsvert að átta sig á hvernig vefir eru hýstir, hvert er hlutverk gagnagrunna, hvað þarf til að kalla fram vefsíðu og birta í vafra svo fátt eitt sé nefnt. Það er líka sálarhjálparatriði að þekkja hugtök og skilaboð á borð við DNS, IP, ISP, IIS, SQL, .NET, Javascript, 301, 404 og 500.

Með góðri aðstoð Google, Vísindavefs og Wikipedia er ég að safna saman nokkrum skilgreiningum á hugtökum og mikilvægri virkni á vefnum sem ég mun birta í sér færslu á næstunni. Bendi óþolinmæðum lesendum sem vilja lesa sig frekar til um tækni vefsins að skoða t.d. bókina 20 Things I Learned About Browsers and the Web, Keys to the Web og stuðningsvefinn Web Monkey.

Hvernig virkar internetið?

Að lokum má skemmta sér yfir einu skemmtilegu myndbandi af vefnum Keys to the Web “How does the Internet work?”

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.