Alþingiskosningar nálgast óðfluga og þegar þetta er skrifað er tæp vika til kosninga. Undanfarin ár hef ég gert mér það að leik að skoða vefi stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar til að meta hversu faglega er staðið að vefmálum.

Að þessu sinni skara Píratar fram úr með langbesta vefinn að mínu mati en Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir virðast hafa minnstan metnað af þeim sjö vefjum sem voru rýndir. Aðrir flokkar standast prófið sæmilega.

Vefur Bjartrar framtíðarVefur FramsóknarflokksinsVefur PírataVefur SamfylkingarVefur Sjálfstæðisflokksinsvidreisn-is-forsidaVefur Vinstri grænna

 

 

 

Um úttektina

Í úttektinni reyni ég að svara eftirfarandi spurningum:

 • Fá lykilverkefni notenda/kjósenda forgang?
 • Styðja vefirnir við markmið flokkanna?
 • Fylgja vefirnir hefðum?
 • Er hraðinn góður á vefnum?
 • Hvernig styðja vefirnir við aðgengi?
 • Eru upplýsingar á öðrum tungumálum?
 • Hvaða vefumsjónarkerfi eru notuð?
 • Hversu líflegir eru vefirnir (fréttir og viðburðir)?

Á síðustu dögum fyrir kosningar leggja margir kjósendur það á sig að kynna sér stefnumál og frambjóðendur. Kjósendur þurfa að geta nálgast stefnumál með skýrum hætti og kynnt sér frambjóðendur. Hluti kjósenda eru gallharðir stuðningsmenn og vilja leggja sitt af mörkum með vinnuframlagi eða jafnvel fjárframlagi. Aðrir vilja lesa fréttir eða mæta á viðburði flokkanna.

Eftirfarandi skilgreindi ég sem lykilverkefni:

 • Er listabókstafur framboðsins sýnilegur?
 • Er augljóst hvernig hægt sé að styðja flokkinn? Þurfa þeir ekki allir stuðning?
 • Er strax hægt að sjá hvernig má hafa samband (a.m.k. netfang)?
 • Er kynning á frambjóðendum og myndir birtar með?
 • Sjást helstu stefnumál á forsíðu?
 • Skalast vefurinn fyrir snjalltæki?
 • Eru upplýsingar á fleiri tungumálum?
 • Er leit á vefnum?

Niðurstöður skoðanakannanaHversu vel styðja svo vefirnir við þessi verkefni? Ég rýndi vefi þeirra sjö flokka sem eru líklegir til að fá menn inn á þing og byggi niðurstöður á síðustu skoðanakönnun sem var birt 21. október. Rýnin fór fram 22. október og tók aðeins til forsíðna vefjanna en þær eru enn mikilvægasta síðan á hverjum vef þó mikilvægi hennar hafi minnkað með breyttri hegðun notenda (gúgglun) og umferð frá samfélagsmiðlum.

Í stuttu máli þá hafa orðið ágætar framfarir frá alþingiskosningum 2013 hjá flestum flokkum á sviði vefmála. Sem dæmi þá eru allir vefir skalanlegir (e. responsive) í ár en fyrir þremur árum var minnihluti vefja skalanlegur. En að sjálfsögðu eiga allir vefir árið 2016 að vera skalanlegir. Hér fyrir neðan má finna skjáskot af forsíðum vefjanna í síma.

Vefur Bjartrar framtíðar í símaVefur Framsóknarflokksins í símaVefur Pírata í símaVefur Samfylkingar í símaVefur Sjálfstæðisflokksins í símaVefur Viðreisnar í símaVefur Vinstri grænna í síma

 

Hefðir í vefhönnun virtar

Í vefhönnun hafa myndast ákveðnar hefðir (við skoðun í tölvu) sem er óskynsamlegt að víkja út af eigi vefurinn að höfða til almennings. Með hefðum er átt við L-in þrjú (logo, leiðarkerfi og leit) og upplýsingar í fæti. Logo eða merki er staðsett efst í vinstra horni eða miðju og leiðir notanda alltaf á forsíðu, leiðarkerfi eða valmynd er staðsett ofarlega þvert yfir vefinn og leit er að finna efst hægra megin og gjarnan táknuð með stækkunargleri. Í fæti búast svo notendur við að finna símanúmer, netfang, staðsetningu og tengla í samfélagsmiðla. Í stuttu máli þá mæta allir vefirnir væntingum notenda hvað þetta varðar fyrir utan að vefur Viðreisnar býður ekki upp á leit.

Forgangsröðun lykilverkefna almennt góð

Kjósendur taka afstöðu til flokka út frá mismunandi forsendum. Flokkshollusta fer minnkandi en það sem skiptir kjósendur mestu máli er afstaða til stefnumála og frambjóðendur. Margir vilja kjósa persónur í stað flokka og því þurfa flokkarnir að gera einstaklingunum hátt undir höfði. Ekki síst að flagga þeim sem kjósendur hafa mikið traust til eða eru líklegir til að draga vagninn.

Hvað stefnumál og frambjóðendur varðar þá gera allir flokkar nema tveir, Framsókn og VG, þeim góð skil á forsíðu vefsins. Píratar gera sínu fólki frábær skil með myndböndum og mjög aðgengilegu efni strax út frá forsíðu.

Formenn flokkanna eru almennt ósýnilegir á forsíðu vefjanna fyrir utan stjórnarflokkana, Sjálfstæðisflokk og Framsókn. Í tilviki VG er það illskiljanlegt þar sem ítrekaðar mælingar sýna að formaður flokksins , Katrín Jakobsdóttir, nýtur yfirburða stuðnings langt út fyrir raðir flokksins. Það er hins vegar leitun að mynd af Katrínu og kynning á henni er stuttaraleg. Auglýsingaherferð VG gengur hins vegar að miklu leyti út á persónu Katrínar en vefurinn fylgir ekki með.

Það er ekki að sjá að núverandi stjórnarflokka vanti peninga eða fólk til að taka þátt í starfinu ef marka má áherslur á vefnum og sama má segja um Samfylkinguna. Aðrir flokkar benda skýrt á leiðir til að styrkja og taka þátt í starfi sinna flokka.

Hægir vefir B og S

Hraði vefsins skiptir miklu máli fyrir notendaupplifun. Samkvæmt áreiðanlegri og óháðri mælingu á hraða vefjanna fær aðeins einn vefur viðunandi einkunn þegar vefirnir eru skoðaðir í tölvu (desktop) en það er vefur Pírata sem fær 75 af 100 stigum en vefur Viðreisnar (68)** og VG (64) geta ágætlega við unað. Vefur Framsóknar fær arfaslaka einkunn eða 23 stig og vefur Samfylkingarinnar þarf að bæta sig á þessu sviði með 43 stig. Hraði vefs Framsóknar í síma (mobile) er í frosti og fær 15 stig en vefur Viðreisnar og VG koma vel út með um 70 stig af 100 mögulegum.

** Uppfært 26.10: Vefur Viðreisnar er kominn í 95/100

Hraði vefjanna í tölvu (desktop)

[bra_graph_container]

[bra_graph Title=”Björt framtíð” Percent=”55″]

[bra_graph Title=”Framsókn” Percent=”23″]

[bra_graph Title=”Píratar” Percent=”75″]

[bra_graph Title=”Samfylking” Percent=”43″]

[bra_graph Title=”Sjálfstæðisflokkur” Percent=”60″]

[bra_graph Title=”Viðreisn” Percent=”68″]

[bra_graph Title=”Vinstri grænir” Percent=”64″]

[/bra_graph_container]

Aðgengismál ófullnægjandi hjá D og P

Það er talið að um 20% notenda vefja eigi við einhverja fötlun að stríða sem gerir þeim erfitt að nota vefi sem eru ekki smíðaðir eftir aðgengisstöðlum. Til að kanna hversu vel vefir flokkanna mæta þessum kröfum var notast við viðurkennt tól á netinu WAVE og kannað hversu margar aðgengisvillur má finna á vefjunum út frá svokölluðu AA samkvæmnisstigi vefstaðalsins WCAG.

Vefur VG kemur best út á þessu sviði þar sem er aðeins að finna tvær villur en vefur Sjálfstæðisflokksins fær flestar villur eða 42 og vefur Pírata er þar skammt undan með 36 villur*. Auðvitað eiga flokkarnir að sjá sóma sinn í að mæta betur þörfum blindra, sjónskertra, litblindra, hreyfihamlaðra og annarra sem nota vefinn til að taka afstöðu til flokkanna.

* Uppfært 26.10: Það er búið að bregðast við þessu hjá Pírötum og Viðreisn – engin þekkt villa finnst.

Fréttir vel uppfærðar hjá V og P

Mín tilgáta er að fremur fáir notendur komi sérstaklega í þeim tilgangi að skoða nýjar fréttir úr starfinu en fleiri hafa örugglega áhuga á að skoða hvar flokkarnir verða á ferðinni. Þó fjöldinn sé ekki á leið á vefinn í þessum tilgangi er engu að síður eðlilegt að uppfæra vefinn reglulega með viðburðum og fréttum tengdum þeim. Ég rýndi hversu oft nýjar fréttir úr starfi flokkanna birtust síðustu sjö daga. Mest líf er á vef VG með 9 fréttir og 8 höfðu birst á vef Pírata þessa daga. Engin frétt hafði birst á vef Samfylkingarinnar og aðeins tvær á vefjum hinna flokkanna. Vefirnir gefa fréttum fremur lítið vægi í hönnun fyrir utan vef Framsóknarflokksins sem setur fréttir í öndvegi.

X við A, B, C, D, P, S eða V?

Þegar við komum í kjörklefann þá þurfum við að vera mjög örugg með hvaða listabókstaf við ætlum að merkja við og þá sérstaklega fyrir þá sem kjósa utan kjörstaðar. Flokkarnir flagga flestir sínum bókstaf skýrt og greinilega en undantekning er þó á því. Við rýni 22. október var listabókstafur Viðreisnar afar vel falinn í fæti vefsins en við skoðun daginn eftir var kominn annar myndafleki á forsíðu þar sem listabókstafurinn var mjög áberandi. Björt framtíð flaggar ekki skýrt sínum bókstaf heldur felur hann á bak við virkni (hover) í merki flokksins. VG gæti sömuleiðis haft sinn listabókstaf sýnilegri.

Tungumálastuðningur góður hjá S og V

Vaxandi hluti kjósenda hefur ekki íslensku að móðurmáli og mikilvægt fyrir flokkana að höfða til þeirra með skýrum skilaboðum. Fimm flokkar af sjö gera upplýsingum á öðrum tungumálum ágæt skil en tveir flokkar, báðir stjórnarflokkarnir, hafa ekki greitt aðgengi að slíkum upplýsingum. Framsókn virðist ekki vera með neinar upplýsingar á ensku og Sjálfstæðisflokkurinn felur nokkuð vel sínar upplýsingar á ensku. Samfylkinginin sýnir mestan metnað á þessu sviði með upplýsingum á spænsku, pólsku og ensku. VG er einnig til fyrirmyndar með að bjóða upp á táknmál og upplýsingar á pólsku og ensku.

Flokkarnir velja WordPress fyrir utan C

Loks rýndi ég í hvaða vefumsjónarkerfi flokkarnir nota og það kom í ljós að sex af sjö flokkum nota vinsælasta vefumsjónarkerfi í heiminum eða WordPress en Viðreisn sker sig úr og notar Drupal (ef ég hef lesið rétt í kóðann).

Vefirnir í hnotskurn

Helstu niðurstöður úr vefgreiningunni má finna hér fyrir neðan, tenglar eru á vefi flokkanna í heiti þeirra:

Vefur Bjartrar framtíðarBjört framtíð – A

Listabókstafur sýnilegur? Já en falinn á bak við merki
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 2 Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Formaður sýnilegur: Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já, EN
Hraði (desktop): 55/100
Hraði (mobile): 44/100
Aðgengisvillur: 12
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Björt framtíð kemur nokkuð vel út en mættu gera listabókstaf og formann sýnilegri auk þess sem hraða- og aðgengismál eru frekar döpur.


Vefur FramsóknarflokksinsFramsóknarflokkurinn – B

Listabókstafur sýnilegur? Já
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 2
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Nei (aðeins í valmynd)
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Frambjóðendur og myndir? Já, en ekki sýnilegt á forsíðu
Formaður sýnilegur: Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Nei
Önnur tungumál? Nei
Hraði (desktop): 23/100
Hraði (mobile): 15/100
Aðgengisvillur: 24
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Framsókn virðist líta á vefinn fyrst og fremst sem frétta- og greinavef en lykilverkefni kjósenda mæta afgangi. Kjósendur sem skilja ekki íslensku eru engu nær. Hraði vefsins og aðgengismál eru ófullnægjandi.


Vefur PírataPiratar.is – P

Listabókstafur sýnilegur? Já
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 8
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Formaður sýnilegur: Nei (enginn formaður)
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já, EN
Hraði (desktop): 75/100
Hraði (mobile): 61/100
Aðgengisvillur: 36* (búið að lagfæra í kjölfar birtingar á grein)
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Píratar eru með langbesta vefinn út frá faglegu sjónarmiði enda undirbúningur sérlega vandaður eins og honum er lýst. Lykilverkefni eru í forgangi og vandað hefur verið til hönnunar og vefunar. Aðgengismálin eru þó ófullnægjandi og ætti að bæta úr.

* Uppfært: Það er búið að bregðast við þessu hjá Pírötum – engin þekkt villa finnst.


Vefur SamfylkingarSamfylkingin – S

Listabókstafur sýnilegur? Já
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 0
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Formaður sýnilegur: Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já, ES, EN og PL
Hraði (desktop): 43/100
Hraði (mobile):  57/100
Aðgengisvillur: 17* (búið að lagfæra allar villur í kjölfar birtingar á grein)
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Samfylkingin hefur stórlega bætt sín vefmál frá 2013 og þessi vefur gerir miklvægu efni góð skil þó erfitt sé að skilja hvers vegna ekki er kallað eftir peningum eða liðsauka. Einnig mætti vefurinn vera betur uppfærður (engar fréttir í 11 daga). Tungumálastuðningur er til fyrirmyndar.


Vefur SjálfstæðisflokksinsSjálfstæðisflokkurinn – D

Listabókstafur sýnilegur? Já
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 2
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Nei
Auðvelt að styrkja flokk? Nei
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Formaður sýnilegur: Já
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Nei (mjög falið)
Hraði (desktop): 60/100
Hraði (mobile): 45/100
Aðgengisvillur: 42
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Sjálfstæðisflokkurinn sýnir takmarkaðan metnað í vefmálum en vefurinn kemur þó stefnu og frambjóðendum ágætlega á framfæri. Kjósendur sem skilja ekki íslensku fá litlar upplýsingar (að kvöldi 23. október duttu þó inn tenglar á takmarkaðar upplýsingar um flokkinn á ensku og pólsku en ekki sérstaklega um kosningarnar). Aðgengismál vefsins eru ófullnægjandi og hraðann mætti bæta umtalsvert.


Vefur ViðreisnarVidreisn.is – C

Listabókstafur sýnilegur? Já og nei (skipta út borðum þar sem annar er með bókstaf en hinn ekki)
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 2
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Nei
Auðvelt að taka þátt? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já
Formaður sýnilegur: Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Já
Önnur tungumál? Já, EN og PL
Hraði (desktop): 68/100** (komið í 95/100)
Hraði (mobile):  71/100** (komið í 100/100)
Aðgengisvillur: 14*
Vefumsjónarkerfi: Drupal

Viðreisn kemur vel út í samanburði við hina flokkana og er líklega með næstbesta vefinn þegar á heildina er litið. Fagmannlega gerður vefur sem forgangsraðar rétt (sérstaklega eftir að listabókstafur varð sýnilegur), styður við önnur tungumál, er hraður en mætti bæta aðgengismálin (lagfært 26.10).

*Uppfært: Það er búið að bregðast við þessu hjá Viðreisn – engin þekkt villa finnst.


Vefur Vinstri grænnaVg.is – V

Listabókstafur sýnilegur? Já, en lítt áberandi
Fjöldi frétta sl. 7 daga: 9
Snjalltækjavænn? Já
Leit? Já
Auðvelt að taka þátt? Já
Auðvelt að styrkja flokk? Já
Hafðu samband upplýsingar? Já
Frambjóðendur og myndir? Já en lítið áberandi
Formaður sýnilegur: Nei
Helstu stefnumál á forsíðu? Já (tengill frá forsíðu)
Önnur tungumál? Já, táknmál, EN og PL
Hraði (desktop): 64/100
Hraði (mobile): 70/100
Aðgengisvillur: 2
Vefumsjónarkerfi: WordPress

Vinstri grænir hafa sparað í vefmálin þetta árið eins og hin fyrri og styðjast við ódýrt tilbúið sniðmát í vefhönnun sem þarf ekki að vera slæmt. Það hefði hins vegar mátt gera mikilvægu efni betri skil t.d. kynningu á frambjóðendum (annað en pdf bæklingur) og áhugaverðari framsetningu á stefnu. Formaðurinn vinsæli er vel falinn á vefnum (sem er óskiljanlegt út frá markaðsmálum) en það sem vefurinn gerir vel er að bjóða upp á upplýsingar á táknmáli og tveimur öðrum tungumálum, fréttir eru reglulega uppfærðar og hann styður vel við aðgengismál.


* Uppfært 24. október, kl. 14:19 – Ábending barst frá Pírötum um að nú þegar hafi verið brugðist við aðgengisvillum á vefnum í kjölfar greinarinnar. Vel gert segi ég nú bara! Þetta sýnir líka að algengar aðgengisvillur má lagfæra með tiltölulega litlum tilkostnaði.

** Uppfært 26. október, kl. 15:57 – Helgi forritari hjá Proton sem vann vefinn fyrir Viðreisn hefur lagfært allar aðgengisvillur og komið hraða vefsins í hæstu hæðir eða 100/100 fyrir mobile og 95/100 fyrir desktop! Fáheyrðar tölur um hraða á vef!

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.