Þegar kemur að því að taka ákvörðun um hvaða tillaga sé best fyrir hönnun vefs er vefstjórinn mikilvægur. Hann verður að eiga síðasta orðið en þarf jafnframt að vinna náið með vefhönnuðinum.

Það býður upp á vonda niðurstöðu að ætla stórum hópi að taka ákvörðunina. Hægt er að kynna áfanganiðurstöður og skissur fyrir stærri hópi. Mikilvægt er að fá athugasemdir á fyrri stigum, gera notendaprófanir út frá skissum, bera tillögur undir markaðsfólkið og að sjálfsögðu fylgja hönnunarstaðli sé hann fyrir hendi. En endanleg ákvörðun er alltaf vefstjórans sem þarf að standa og falla með sinni ákvörðun.

Markhóparnir mikilvægastir

Það sem er mikilvægast að hafa í huga þegar endanleg ákvörðun er tekin eru markhópar vefsins. Telurðu að hönnunin muni hugnast þeim og sé notendavæn? Þó freistandi sé að fara eingöngu eftir eigin fagurfræði eða að geðjast forstjóranum þá er það líklega ávísun á að vefurinn verður misheppnaður.

Það gefst mjög vel á öllum stigum að vera með e.k. notendaprófanir. Þær þurfa ekki að vera flóknar. Fáðu til þín 1-2 notendur og spyrðu þá um útlitsdrögin á sama hvaða stigi sem hönnunin er, fáðu álit og annastu sjálfur prófanirnar maður á mann. Fókusgrúbba er ekki líkleg til að skila þér miklu.

Ein aðferð er augnablikspróf eða “flash testing”. Sýndu notandanum hönnunina í nokkrar sekúndur og taktu hana svo í burtu og spyrðu hann hvað hann hafi tekið eftir. Stórsniðuga augnabliksprófun má finna hjá Clueapp.

Þær niðurstöður gefa þér mynd af því sem hefur mest áhrif í hönnuninni og fangar augað. Spyrðu líka bara almennra spurninga, hvernig útlitið hafi virkað á hann, hver var fyrsta tilfinningin?

Forðist of mikið lýðræði!

Of mikið lýðræði og stórir fundir eru sem sagt ávísun á vonda niðurstöðu þar sem líklegt er að komið sé til móts við öll sjónarmið og úr verður einhver moðsuða sem í raun enginn er ánægður með en stuðar engan líklega.

Fundaðu frekar maður á mann með hagsmunaaðilum, sestu niður með forstjóranum þegar hönnunin er komin á veg, hittu markaðsteymið á einum fundi, helst bara markaðsstjórann ef þau eru fleiri o.s.frv. Sjálfsagt er að kynna hönnunarhugmyndir fyrir tölvudeild og sérstaklega fá athugasemdir á eitthvað sem kann að orka tvímælis t.d. varðandi öryggismál.

Það þarf sem sagt að gæta ákveðins lýðræðis, leyfa fólki að segja sína skoðun og takið tillit til gildra sjónarmiða en lokaákvörðun er alltaf vefstjórans og náin samvinna við hönnuðinn.

Ekki kæfa sköpunargáfu hönnuðarins

Vefstjóri þarf að hafa eigin hugmyndir um hönnunina en hann má ekki kæfa sköpunargáfu hönnuðarins heldur leyfa honum að njóta sín upp að ákveðnu marki. En bara upp að ákveðnu marki. Það er freistandi að ráða spútnik hönnuð nýútskrifaðan úr listaskóla með magnaðar hugmyndir. En það gengur yfirleitt ekki vel, því vefurinn er í nokkuð föstum skorðum, það eru ákveðin grundvallaratriði sem eru orðin viðtekin og erfitt að víkja frá rétt eins og almennt gildir um hönnun sem þarf að hafa notagildi. Notandinn býst við að sjá logoið efst í vinstra horni, hann á von á því að geta slegið inn leitarorð ofarlega hægra megin, leiðarkerfið er annað hvort lárétt efst á vefnum eða í vinstra dálki en ekki þeim hægri o.s.frv. Þetta er allt takmarkandi fyrir hönnuðinn en ef þið gefið honum frelsi til að fara út úr þessum ramma er viðbúið að notagildi vefsins rýrni

Mynd: jscreationzs / FreeDigitalPhotos.net

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.